mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldveiðar: Flótti undan makrílnum stöðvaður

28. ágúst 2009 kl. 15:22

Sjávarútvegráðherra heimilaði í dag að meðafli í makríl við síldveiðar mætti vera 20% frá og með 9. júlí. Þar með er fyrri ákvörðun um 12% meðafla numin úr gildi og flótti síldarskipa undan makrílnum væntanlega stöðvaður í bili að minnsta kosti.

Í reglugerð sem gefin var út í dag um veiðar íslenskra skip úr norsk-íslenska síldarstofninum segir: ,,Við veiðarnar skal makrílafli ekki fara yfir 20% af heildarafla hvers skips fyrir tímabilið 9. júlí til og með 30. september 2009. Heimilt er að flytja meðaflaheimild milli skipa.“

  Eftir að bein sókn í makríl var stöðvuð í sumar og 12% mörk voru sett um meðafla í makríl hafa síldarskipin átt í miklum erfiðleikum við veiðarnar. Hafa þau iðulega þurft að færa sig af veiðisvæðum vegna of mikils meðafla í makríl. Var svo komið að veiðar þeirra skipa, sem veiddu síld til manneldisvinnslu í landi, hefðu stöðvast ef makrílprósentunni hefði ekki verið breytt.

Samkvæmt tölum Fiskistofu eru íslensk fiskiskip búin að landa um 110 þúsund tonnum af makríl af þeim 112 þúsund tonnum sem lagt var upp með að Íslendingar myndu veiða í ár. Spurning er hvort eftirstöðvar þess kvóta muni duga til sem meðafli við síldveiðarnar það sem eftir er vertíðar.