mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sitjum ekki undir svona ofbeldisaðgerðum

14. maí 2009 kl. 11:17

segir Eiríkur Tómasson framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf.

,,Er rétt að eyðileggja farsæla uppbyggingu í sjávarútvegi síðustu ára undir yfirskini réttlætis og sáttargjörðar? Sjávarútvegurinn mun ekki sætta sig við fyrningarleið ríkisstjórnarinnar og mun ekki sitja undir ofbeldisaðgerðum eins og þeim sem boðaðar eru í ríkisstjórnarsáttmálanum,” segir Eiríkur Tómasson framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. og varaformaður LÍÚ í viðtali við í Fiskifréttum í dag.

Eiríkur segir að sér virðist áformin um fyrningarleiðina vera að snúast upp í átök milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.

,,Ég skynja það þannig að hugmyndirnar um fyrningu aflaheimilda séu fyrst og fremst komnar frá sömu elítunni á höfuðborgarsvæðinu og formaður VG sagði að væri með glýju í augum yfir ESB og teldu að veröldin endaði í Ártúnsbrekku og suður við Straum. Ég trúi því ekki að Vinstri grænir láti þetta ganga eftir, þeir bera ábyrgð á sjávarútvegsmálum í ríkisstjórninni,” sagði Eiríkur. 

,,Ég sé ekki að þau fyrirtæki sem starfrækt eru í dag séu í stakk búin til þess að kaupa aftur aflaheimildirnar sem frá þeim væru teknar. Þau fóru illa í bankahruninu og sitja uppi með stórauknar skuldir hrunsins vegna sem þau verða að borga af. Það tekur þau allt að tíu ár að komast út úr skuldunum, en þau voru almennt með ágæta eiginfjárstöðu fyrir hrunið. Til þessara skulda var stofnað eftir að Alþingi hafði hvatt til þess með lagasetningu að sjávarútvegurinn sæi sjálfur um að hagræða í greininni með fækkun skipa og sameiningu veiðiheimilda, öfugt við það sem gerist innan ESB, sem er fyrirheitna land margra. Það gerðist með kaupum á aflaheimildum sem margir tóku lán fyrir, í þeirri trú að treysta mætti lögum settum af Alþingi. Nú er talað um að rýmka þurfi fyrir nýliðum í greininni með því að taka aflaheimildir af þeim sem fyrir eru, heimildir sem þeir hafa keypt í samræmi við lög frá Alþingi. Munu þessir nýju aðilar þá ekki þurfa að flytja inn ný skip og byggja ný fiskvinnsluhús? Hvaða sátt er fólgin í fyrningarleiðinni? Framlegð rekstrar útgerðar og fiskvinnslu hefur aukist smám saman í takt við hagræðingaraðgerðir þær sem sjávarútvegurinn hefur sjálfur kostað. Á að kasta því öllu fyrir róða?” spyr Eiríkur.

Viðtalið í heild birtist í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.