föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjö daga gamall þorskur bragðast best!

10. ágúst 2009 kl. 11:54

Í bragðkönnun, sem gerð var í norsku bæjunum Tromsö, Hamar og Stavanger og 400 manns tóku þátt í, voru þátttakendur beðnir að gefa álit sitt á þorski sem annars vegar var 5-7 daga gamall og hins vegar 1-2 daga gamall en þeir voru ekki upplýstir um það hve langt var síðan fiskurinn var veiddur. 

Niðurstaðan varð sú að 75% þátttakenda sögðust vilja kaupa þorsk af þeim gæðum sem 5-7 daga fiskurinn var eftir að hafa smakkað blint á honum. Tæplega 70% sögðust vilja kaupa þorsk af þeim gæðum sem 1-2 daga fiskurinn var, einnig eftir að hafa bragðað á honum án þess að vita um aldur hans.

,,Neytendur halda að þeir vilji heldur ferskasta fiskinn en í reynt velja þeir fiskinn sem er eldri. Það vekur upp spurningar um það hvort neytendur haldi áfram að kaupa ferskan fisk ef þeir eru upplýstir um að hann sé eldri en tveggja daga,” segir í frétt frá landssamtökum norskra fiskframleiðslufyrirtækja.

Könnun þessi var gerð í tilefni þess að frá 1. janúar á næsta ári verður skylt að dagmerkja fisk sem seldur er norskum neytendum með veiðidegi eða slátrunardegi.

Norskir fiskframleiðendur hafa áhyggjur af misræminu milli þess sem bragðlaukar neytenda gefa til kynna og þess sem þeir trúa að sé ferskast og best. Framkvæmdastjóri landssamtakanna segir að niðurstaða könnunarinnar sé því miður í takt við það sem samtökin hafi búist við. Fiskframleiðendur óttast að þegar merkingarnar taka gildi um næstu áramóti muni sala á ferskum fiski dragast verulega saman, landfræðileg lega muni skerði samkeppnishæfni margra fyrirtækja og neyslufiski verði fleygt í ríkara mæli en nú vegna aldurs.

Skýrt er frá þessu á vef Fiskeribladet/Fiskaren.