þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjóðir hagnast vel á sölu tæknifyrirtækisins Völku

9. mars 2018 kl. 11:11

Bitaskurður í röntgenstýrðu vatnsskurðarvél Völku.

Fyrirtækið var stofnað árið 2003 í bílskúr Helga Hjálmarssonar framkvæmdastjóra.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og framtakssjóðurinn Frumtak hafa selt samtals 37% hlut sinn í hátæknifyrirtækinu Völku ehf. með góðum hagnaði. Valka hefur verið leiðandi á heimsvísu í þróun og sölu á nýrri tækni fyrir sjávarútveg, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Fyrirtækið var stofnað árið 2003 í bílskúr Helga Hjálmarssonar framkvæmdastjóra Völku, og hefur vöxturinn verið mikill síðan. Hjá fyrirtækinu starfa nú um sextíu manns og viðskiptavinir eru víða um heim.

Helgi segir aðkomu nýsköpunarsjóðanna beggja hafa skipt sköpun fyrir vaxtarmöguleika fyrirtækisins á miklu uppbyggingartímabili. Gleðilegt sé að fjárfestingin hafi skilað sjóðunum ábata sem vonandi nýtist öðrum nýsköpunarfyrirtækjum síðar.

Á sama tíma og nýsköpunarsjóðirnir seldu hlut sinn nýverið var einnig hlutafjáraukning í félaginu. Nýir hluthafar með mikla reynslu og þekkingu á sjávarútvegi hafa bæst í hóp eigenda og nokkrir núverandi hluthafar juku einnig hlut sinn við þessi tímamót. Nordic Mar ehf. var ráðgjafi seljenda í söluferlinu.

Aðkoma sjóðanna mikilvæg og arðbær

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins kom fyrst inn sem hluthafi í Völku árið 2008 og Frumtak kom að fyrirtækinu árið 2011. 

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, segist ánægð með samstarfið.  „Vegferðin með Völku hefur verið árangursrík bæði fyrir félagið og sjóðinn. Það hefur verið sérlega ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingu félagins þar sem áherslan hefur ávallt verið á nýsköpun og framþróun.“

Svana Gunnarsdóttir, fjárfestingastjóri Frumtaks, tekur í sama streng og segist ánægjulegt að skilja við fyrirtækið í góðum höndum. „Það hefur verið skemmtilegt að taka þátt í uppbyggingu Völku og hefur félagið sannarlega sýnt og sannað að tæknilausnir þess eiga erindi á alþjóðamarkað.  Starfsmenn félagsins eiga heiður skilið fyrir þann árangur sem náðst hefur. Það er ánægjulegt að skilja við félagið þegar svona vel gengur og aðrir sterkir fjárfestar taka nú við keflinu.“

Tækifæri að í að hrista upp í kyrrstöðu

Fyrirtækið Valka var stofnað af Helga Hjálmarssyni árið 2003 og hefur frá upphafi unnið að nýjum tæknilausnum fyrir sjávarútvegsfyrirtæki og hefur verið leiðandi í þróun og sölu á nýrri tækni á sjálfvirkum beina- og bitaskurði á fiskflökum fyrir hvítfisk- og laxavinnslur.

„Mér fannst lítið hafa gerst í þróun á tækjabúnaðar í fiskvinnslum árum saman. Í kyrrstöðu geta falist mikil tækifæri, það er að segja ef hægt er að hreyfa við hlutunum og koma nýjum hugmyndum að. Stuðningur sjóðanna skipti sköpun við það, sem og góð samvinna við atvinnugreinina. Nýjar lausnir í sjávarútvegi gera afurðir einnar helstu auðlindar Íslands enn verðmætari og um leið skapast enn frekari sóknartækifæri fyrir íslenskan iðnað við hönnun tækjabúnaðar,“ segir Helgi.

„Það var afar mikilvægt að fá sjóðina til lið við okkur á sínum tíma. Mér er efst í huga þakklæti fyrir aðkomu þeirra, stuðning og gott samstarf á tímabilinu. Með nýjum hluthöfum og fjármagni stendur félagið sterkt og stefnan sett á áframhaldandi vöxt á komandi árum.“