mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjómannaafsláttur margfalt hærri í nágrannalöndunum

10. desember 2009 kl. 12:00

Í Noregi er sjómannaafsláttur tíu sinnum hærri en hérlendis, í Færeyjum er fimmfaldur munur og í Danmörku þrefaldur, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Áform ríkisstjórnarinnar um að afnema sjómannaafsláttinn í áföngum hafa beint athyglinni að hliðstæðum skattaívilnunum erlendis. Í ljós kemur að nýbúið er að hækka afsláttinn í Noregi og verður hann frá og með næsta ári jafnvirði 3,3 milljóna íslenskra króna. Til samanburðar má nefna að hámarksafsláttur til handa sjómönnum á Íslandi er 360 þúsund krónur á ári. Munurinn er tífaldur.

Í Færeyjum er sjómannaafslátturinn jafnvirði 1.853 þúsunda íslenskra króna. Þarna er um fimmfaldan mun að ræða miðað við íslenska afsláttinn. Í Danmörku er skattaafslátturinn sem svarar 1.033 þús. ísl. kr. Þrefaldur munur. Og í Svíþjóð er afslátturinn sem svarar 634.000 ísl. kr., ,,aðeins” helmingi hærri en á Íslandi. 

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.