miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjómannaafslátturinn afnuminn í áföngum á fjórum árum

27. nóvember 2009 kl. 09:58

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um tekjuöflun ríkisins þar sem m.a. er lagt er til að sjómannaafslátturinn verði látinn fjara út á fjórum árum frá og með tekjuárinu 2011.

Sjómannaafslátturinn er í dag tæpar þúsund krónur á sólarhring, sem bætist ofaná persónuafslátt sjómanna. Rök fyrir sjómannaafslættinum á sínum tíma voru meðal annars ; langar fjarvistir frá heimili, slæmar vinnuaðstæður og þörf á sérstökum vinnufatnaði.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að öll þessi atriði hafi breyst og dregið hafi úr gildi þeirra í samanburði við aðra launþega. Einnig hefur sjómannaafslátturinn verið tengdur kjaramálum sjómanna og í greinargerðinni er bent á, að þetta sé í dag eðlilegur hluti af samskipum launþega og vinnuveitenda. Auk þess sem þeir sex þúsund sjómenn sem nú njóta afsláttarins eru meðal þeirra best launuðu á sjó og landi. Laun þessa hóps hækkuðu um ríflega 50% á árunum 2006-2008 á meðan meðallaun framteljenda almennt hækkuðu um tæp 30%. Mismunurinn skýrist að hluta til með gengisþróun sem haft hefur jákvæð áhrif á laun sjómanna.

Í röksemdafærslu með frumvarpinu segir, að sjómenn séu í fámennum hópi fólks sem fengið hafi verulegar kjarabætur í kreppunni og að mikilvægt sé að skattkerfið stuðli að jöfnuði meðal fólks. Nú þegar nauðsyn sé á að hækka skatttekjur ríkisins sé því eðlilegt að byrja á því að fella niður skattaívilnanir sem feli í sér mismunun.

Því leggur fjármálaráðherra til að sjómenn fái fjögurra ára aðlögunartíma á þann hátt að sjómannaafslátturinn fjari út á næstu fjórum árum og verði að öllu horfinn árið 2014.

ruv.is skýrir frá þessu.