

,,Það er skandall, svo ekki sé dýpra í árina tekið, að sjá fram á að sjómenn missi af HM í handbolta vegna aulagangs stjórnenda ríkisútvarpsins,” segir Árni Bjarnason forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands í grein í nýjustu Fiskifréttum.
,,Mér er til efs að í nokkurri starfstétt á Íslandi sé eins hátt hlutfall áhugamanna um handbolta og raunin er meðal sjómanna,” segir Árni í greininni. ,,Árum saman greiddu útgerðir afnotagjöld af sjónvörpum í flotanum til RÚV án þess að nokkuð væri að sjá á skjánum, nema í algjörum undantekningar tilvikum þegar skipin voru upp í harða landi eða í höfn. Um alllangt skeið hefur dagskrá RÚV verið send í gegn um gervihnött út í flotann. Fullyrða má að um hafi verið að ræða byltingu á aðstæðum sjómanna sem dvelja langdvölum úti á sjó. Það er því skandall, svo ekki sé dýpra í árina tekið, að sjá fram á að sjómenn missi af HM í handbolta vegna aulagangs stjórnenda ríkisútvarpsins. Þessi framgangur mála er einfaldlega óásættanlegur frá sjónarhóli sjómannanna. Ljóst virðist að ekki verði úr bætt hvað varðar þá keppni sem nú er hafin. Gera verður ráðstafanir sem duga til þess að þetta klúður gerist ekki aftur.”