sunnudagur, 9. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skip Hafró líklega til loðnuleitar um helgina

11. janúar 2018 kl. 12:23

Loðnan væn en veiðin dræm

Skip Hafrannsóknastofnunar fara líklega út núna um helgina, en aukið úthald í vöktun verður bæði nú í janúar og febrúar, en einnig í september sem byggir á aukafjárveitingu til stofnunarinnar á nýjum fjárlögum.

Uppsjávarveiðiskipin hafa undanfarna daga verið að kortleggja loðnuna.  Polar Amaroq kláraði stutta yfirferð um Norðuraustur svæðið á dögunum og var þá þegar búið að skanna Vestfjarða- og Norðurmið af skipum HB Granda, Venusi og Víkingi. Vilhelm Þorsteinsson, skip Samherja, kom einnig að því verkefni. Þá hafa skipin Börkur, Beitir, Guðrún Þorkelsdóttir og Heimaey komið að því að skoða kantinn og grunninn út af norðanverðu Austurlandi og að veiðislóðinni út af Langanesi þar sem fyrst veiddist loðna.

Fimm skip voru við loðnuleit og -veiðar norðaustur af Langanesi í fyrradag en veiðin var fremur dræm. Pétur Andersen skipstjóri á Sigurði VE sagði rólegt yfir þessu í augnablikinu. Þeir hafi þó verið í loðnu syðst í hólfinu á þriðjudag en það hafi ekki staðið lengi yfir. Aðfaranótt miðvikudagsins hafi menn verið að leita loðnu. Einhverjir smáflekkir fundist nyrst við Langanesið og voru skipin að fara kasta á þá. Sigurður VE var kominn með á  milli 600-700 tonn af vænni loðnu. Um 40 loðnur eru í kílóinu og hún fremur átulítil.

„Þetta eru litlir blettir en menn eru ekkert að örvænta. Þetta er rétt að byrja,“ segir Pétur.