miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skip HB Granda halda til síldveiða

22. maí 2009 kl. 14:25

Ákveðið hefur verið að senda skip HB Granda til síldveiða en undanfarna daga hafa íslensk skip fengið ágætis afla um 160 sjómílur norðaustur af landinu. Faxi RE og Lundey NS halda af stað á næsta sólarhringnum en Ingunn AK síðar.

Samkvæmt upplýsingum Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, var von á Faxa RE til Reykjavíkur nú um hádegisbilið. Þar verður síldartrollið tekið um borð og í framhaldinu fer skipið svo til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Reiknað er með því að Lundey NS fylgi í kjölfarið og fari til síldveiðanna seint í kvöld eða í fyrramálið. Verið er að taka upp aðalvélina í Ingunni AK og því verki lýkur ekki fyrr en í lok næstu viku og þá mun skipið væntanlega fara til síldveiða.

,,Það var ágæt síldveiði í gær og ástandið er þannig að ekki er talið nauðsynlegt að tvö skip stundi veiðarnar saman með einu stóru trolli, líkt og var framan af síldarvertíðinni í fyrra. Síldin er sögð vera stór og góð en það er þó einhver áta í henni,” segir Ingimundur Ingimundarson í viðtali á heimasíðu HB Granda.