sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skoða vinnslu á vöru úr humarskel

Guðjón Guðmundsson
19. mars 2019 kl. 13:30

Norður í samstarf við sjávarklasann í Maine

Fyrirtækið Norður er í samstarfi við sjávarklasann í Maine um hugsanlega nýtingu á humarskel. Mikil humarveiði er á þessum slóðum en almennt er búkurinn ekki nýttur heldur eingöngu halinn og klærnar. Þarna fellur því mikið til af ónýttu hráefni. Norður hefur þróað ákveðna aðferð til að vinna bragðkraft með ensímum úr hráefni eins og þessu.

Árið 1996 stofnuðu Jón Bragi Bjarnason, Bergur Benediktsson og Þorsteinn Ingi Sigfússon líftæknifyrirtækið Norður um þá uppfinningu þeirra að nýta meltingarensím úr þorski til framleiðslu á próteini. Aðferðin er einkaleyfisvernduð. Norður er nú aðili að sjávarklasanum á Íslandi og í New England þar sem unnið er að forathugun á því að vinna bragðkraft úr humarskel með þessari aðferð.

Þórður Bergsson hjá Norðri segir að fyrirtækið hafi á árum áður flutt inn skel frá Kanada til þess að vinna bragðkraft úr henni en þetta viðskiptamódel hafi ekki gengið upp. Nú sé unnið að því að vinna vöru úr humarskel á Íslandi og kynna hana fyrir kaupendum ytra. Í framhaldinu sé stefnt að því að vinnsla sem byggist á þessari aðferð verði sett upp þar sem hráefnið fellur til. Líklegt er að ensímin verði framleidd hér á landi og nýtt til vinnslu á bragðkrafti úr skel ytra.

Í súpur og sósur

„Uppistaðan í vörunni eru prótein og peptíð úr humrinum og eitt af eiginleikum þeirra er að þau hafa mikið bragð. Hægt er að nýta vöruna í súpur, sósur, ídýfur og aðrar vörur sem eiga að hafa humarbragð. Verkefnið er í raun á frumstigi ennþá en við horfum til þess að það fæðist fleiri verkefni í svipuðum dúr í framhaldinu. Við beinum sjónum okkar einkum til þeirra staða þar sem hráefni er ekki fullunnið. Við stefnum að því að fá sýnasendingar af slíku hráefni til þess að vinna úr því vörur sem hugsanlega yrði hægt að nýta á þeim stöðum sem hráefnið fellur til. Ef það gengur upp þá er næsta skref að fara í uppbyggingu á vinnslu á þeim svæðum,“ segir Þórður.

Humarbragðkraftur er eftirsótt vara og mikið fellur til af humarskel ytra.

Þannig yrði í raun tilraunavinnsla hér á landi þar sem framleidd yrðu úr hráefninu sýni og vöruþróun færi jafnvel fram. Á grundvelli þess yrði hægt að byggja upp viðskiptamódel sem snerist um framleiðslu á tiltekinni vöru.

Einskorðast ekki við humarskel

Klasasamstarfið í Maine nýtist Norður til þess að byggja upp tengslanet og koma á samskiptum við aðila í Bandaríkjunum. Komist verkefnið á næsta stig getur klasinn í Maine aðstoðað við margs konar úrlausnarefni, eins og að finna samstarfsaðila, flutningalausnir og fleira. Norður hefur þróað vöruna sem byggir á þessari aðferðafræði og nú sé stefnt að því að nýta þekkinguna og tæknina og gera söluvöru úr henni.

„Framtíðarsýnin er sú að Norður verði meira í hlutverki þróunar- og nýsköpunarfyrirtækis sem þrói nýjar vörur úr hráefni sem fellur til við vinnslu hvar sem er í heiminum. Það einskorðast ekki við humarskel heldur getur falist í vinnslu á bragðkrafti úr fiski eða rækju, svo dæmi séu tekin. Það er síðan annað úrlausnarefni hvort við getum nýtt þessa sömu aðferð til þess að þróa aðra vöru íframhaldinu. Þetta eru prótein og þau eru til margra nota.“

Þegar prótein hafa verið hreinsuð úr humarskelinni verður eftir hrein skel sem hugsanlega verður hægt að nýta til áframhaldandi vinnslu á annarri vöru.

Greinin birtist nýlega í sérblaði Fiskifrétta um nýsköpun í sjávarútvegi