mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skoskt dagblað: Næsta þorskastríð Íslands háð í Brüssel

19. ágúst 2009 kl. 15:08

Í grein í skoska dagblaðinu The Inverness Courier segir að Ísland eigi framundan nýtt þorskastríð, sem að þessu sinni verði háð í fundarsölum í Brüssel en ekki á hafi úti. Skoskir sjómenn og útgerðarmenn, sem lengi hafa haft horn í síðu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, ætla að fylgjast grannt með því hvernig Íslendingum reiðir af í aðildarviðræðum við ESB um sjávarútvegsmál.

Struan Stevenson, þingmaður skoska íhaldsflokksins, segir í blaðinu að gefi ESB Íslandi eitthvað eftir frá sameiginlegu fiskveiðistefnunni muni Skotar krefjast sambærilegra tilslakana fyrir sinn sjávarútveg. Hann segir Ísland í þessu tilliti í hlutverki eins konar undanfara.

Skosk yfirvöld hafa ítrekað viðrað þá skoðun sína við yfirvöld ESB í Brüssel að eðlilegra sé að stjórn veiðanna sé í þeirra eigin höndum. Í fyrrnefndri grein kemur fram að Skotar vonast til að hugsanlega innganga Íslands í ESB muni verða til þess að hraða endurbótum á fiskveiðistefnunni.

Frá þessu er skýrt á vef LÍÚ