mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skýrsla um þorskinn: ,,Afar sérkennileg niðurstaða"

30. maí 2009 kl. 11:57

segir Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda

,,Mér finnst afar sérkennileg sú kenning vísindamannanna, að þorskur á grunnslóð sé í þann veginn að hrynja vegna mikils veiðiálags þegar þess er gætt að fiskirí á grunnslóð undanfarin ár hefur verið betra en í marga áratugi þar á undan,” sagði Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda þegar Fiskifréttir báru undir hann niðurstöðu skýrslu um bágt ástand þorskstofnsins sem kynnt var í ríkisútvarpinu í gær.

,,Ég hefði gaman að fá skýringu á því hvernig á því stendur að það helst uppi feiknagóð veiði á smábátaslóðinni og engin merki um annað en að svo verði áfram. Jafnvel svæði sem áður voru steindauð og eins og eyðimörk fyrir 20-30 árum, eru skyndilega orðin sprelllifandi af fiski. Sem dæmi má nefna Eyjafjörð. Til margra ára þýddi lítið að reyna að ná í fisk þar en nú komast menn í þokkalega veiði nánast hvar sem er í firðinum," sagði Arthur.

Rannsókninni sem vitnar er til var stýrt af Einari Árnasyni prófessor í þróunarfræði og stofnerfðafræði við Háskóla Íslands en meðhöfundar eru Ubaldo Benitez Hernandez og Kristjáns Kristinssonar hjá Hafrannsóknastofnun. Þar kemur fram að arfgerðir þorsks við Ísland séu þrjár, þ.e. fiskur á grunnslóð, fiskur á dýpra vatni og svo fiskur sem flakkar þar á milli. Veiðiálagið sé mest á fiskinn á grunnsævi og miðað við óbreytt ástand muni hann hverfa á stofninum á mjög skömmum tíma, í mesta lagi séu 7 kynslóðir eftir, kannski mun færri.

Höfundar skýrslunnar hafa áhyggjur af yfirvofandi hruni í stofninum og segja að bregðast þurfi við með því að draga úr þessum valáhrifum veiðanna, helst með friðun svæða. Höfundar leggja ekki beint til hvaða svæði, en nefna möguleika, annars vegar svæði norðaustan við landið og svæði sunnan- og vestanlands.

Fiskifréttir leituðu álits Jóhanns Sigurjónssonar  forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar á niðurstöður skýrslunnar. Hann kvaðst ekki vilja gefa neinar yfirlýsingar fyrr en skýrslan hefði verið skoðuð nánar innan stofnunarinnar.