miðvikudagur, 18. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smámakríll lætur ekki sjá sig

17. ágúst 2017 kl. 14:00

Makríll á ís.

Meðalþyngd hjá Beiti NK var 526 grömm

Meðalvigtin á makrílnum sem Beitir NK landaði í byrjun vikunnar var um 526 grömm og þannig hefur fiskurinn að mestu verið á þessari vertíð. Beitir hitti á makrílvöðu á Langabanka sunnan Hvalbaks. Tómas Kárason skipstjóri segist aldrei á ferlinum hafa fengið jafnmikið í jafn stuttu holi, alls um 500 tonn á hálftíma.

 

„Það var ekkert mikið um að vera í gær og þetta er svipað í dag; ágætis kropp en ekkert í líkingu við veiðina í byrjun viku. Það var mökkur af fisk þarna og við hittum vel á þetta.“

Tómas segir að veiðin komi í gusum og svo sjáist lítið þess á milli. Heilt yfir hafi þó fiskast ágætlega.

„Þetta er mjög stór og fallegur makríll sem við höfum verið að fá. Við höfum ekkert séð af smámakríl og það er óvenjulegt miðað við fyrri vertíðir. Það er spurning hvernig þetta er allt saman að þróast. Menn hafa verið að velta því fyrir sér hvort þetta sé fiskur sem er að koma sunnan og vestan að en ekki frá Hjaltlandseyjum og Færeyjum. Norðmennirnir eru núna að veiða mun smærri makríl úti fyrir Noregi. Menn hallast helst að því að um nokkrar göngur sé að ræða,“ segir Tómas.

Áta er í makrílnum sem hefur verið að veiðast en hún er mismikil eftir köstum. Tómas segir að það sé síld út um allt úti fyrir Austurlandi en makrílaflinn sé engu að síður tiltölulega óblandaður. Sem fyrr segir var meðalþyngdin í síðustu löndun Beitis 526 grömm. „Það gerist vart betra og það eru auðvitað heilmikil verðmæti í þessu.“