mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sprenging í verði á fiskimjöli

7. desember 2009 kl. 15:00

Í síðustu viku varð sprenging í verði á fiskimjöli. Fór verðið þá upp í 1.627 dollara á tonnið á uppboðsmarkaði í Hollandi. Hér var að vísu um lítið magn að ræða en verðþróunin hefur þó öll verið upp á við síðustu vikur og mánuði, að því er fram kemur á IntraFish.

Frá því í sumar hefur fiskimjölið hækkað úr um það bil 1.000 dollurum á tonnið. Lýsið hefur hækkað úr 700 dollurum á tonnið í um 900 dollara á sama tíma. Til samanburðar má nefna að verð á sojamjöli er í kringum 430 dollarar á tonnið sem er einnig hátt verð í sögulegu samhengi. Verð á fiskimjöli er nú 3,5-4 sinnum hærra en verð á sojamjöli og mun hærra en verð á repjumjöli.

Þessar miklu verðhækkanir kunna að leiða til þess að fóðurframleiðendur auki hlut mjöls sem unnið er úr plöntum í fóðri. Mjöl og lýsi eru nú í kringum 25-30% af hráefni sem notað er til fóðurframleiðslu en það er þó mismunandi eftir einstökum fóðurgerðum.

Eftirspurn eftir mjöli frá Kína hefur þrýst verðinu upp. Aðeins eru um 50 þúsund tonn af fiskimjöli í birgðum í Kína og eru þær litlar í sögulegu samhengi. Birgðir í heiminum eru einnig litlar.

Ársframleiðslan á fiskimjöli er nú í kringum fimm milljónir tonna og er það nokkuð undir ársmeðaltali síðustu 10 ára. Á sama tíma eykst eftirspurnin frá Kína ár frá ári. Sem dæmi má nefna að rækjueldi í Kína jókst um 17% á milli ára og einnig er mikill vöxtur í framleiðslu svínakjöts. Báðar þessar greinar þarfnast mikils fóðurs sem unnið er að stórum hluta úr fiskimjöli.