fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stærstu útgerðir landsins fá mesta lækkun

31. maí 2018 kl. 11:12

Skip í höfn

Gróflega reiknað má telja að tuttugu stærstu útgerðir landsins fái nærri 70 prósent lækkunarinnar eða hátt í tvo milljarða í sinn hlut.

Lækkun veiðigjalda samkvæmt frumvarpi atvinnuveganefndar nemur um það bil 2,7 milljörðum króna fyrir almanaksárið 2018, verði 8,3 milljarðar í staðinn fyrir um það bil 11 milljarða.

Megnið af þessar lækkun kemur í hlut stærstu útgerðarfyrirtækja landsins.

Þannig fá tíu stærstu útgerðirnar væntanlega nærri helming lækkunarinnar, eða nærri 1,4 milljarða. Tuttugu stærstu fá nærri 70 prósent lækkunarinnar, eða 1,9 milljarða. Fimmtíu stærstu fá 86 prósent eða nærri 2,4 milljarða.

Öll önnur útgerðarfélög landsins, önnur en þau 50 stærstu, fengju þá samtals innan við 400 milljónir í sinn hlut af heildarlækkun upp á 2,7 milljarða. Á síðasta fiskveiðiári greiddu um þúsund útgerðarfélög veiðigjöld.

Þetta er gróflega reiknað miðað við að hlutur stærstu útgerða landsins í greiðslu veiðigjalda verði álíka mikill og hann hefur verið það sem af er árinu.

Á yfirstandandi fiskveiðiári hafa útgerðir landsins nú þegar greitt um 6,5 milljarða í veiðigjöld.

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis lagði í gær fram frumvarp þar sem lögð er til lækkun veiðigjalda. Um krónutölulækkun á allan veiddan afla er að ræða en einnig er hækkaður sérstakur afsláttur á minni útgerðir.

Formaður nefndarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona Vinstri-grænna, segir í viðtali við Fréttablaðið í morgun að verið sé að endurreikna veiðigjöld miðað við núverandi afkomu greinarinnar.

„Við erum að endurútreikna veiðigjöld miðað við afkomu greinarinnar í ár en ekki ársins 2015,“ segir Lilja Rafney við Fréttablaðið.

Minnihluti atvinnuveganefndar gagnrýnir harðlega að svo stórt mál, og pólitískt viðkvæmt, skuli koma fram þegar lítið lifir af yfirstandandi þingi. 

Landssamband smábátaeigenda hefur tekiðí sama streng og hyggst jafnframt gera kröfu um sérstakan viðbótarafslátt til útgerða smábáta nú þegar frumvarpið fer til umræðu í þinginu.

Árétting (1. júní, kl. 12:40)
Þess ber að geta að hér er slegið saman tölum um veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2017-18 annars vegar og almanaksárinu 2018 hins vegar. 

Þannig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að veiðigjöld almanaksárið 2018 verði 8,3 milljarðar en hefðu orðið 10 milljarðar samkvæmt því sem ráð var fyrir gert í vinnu við gildandi fjárlög. 

Heildarlækkun ársins myndi þá nema 1,7 milljarði en ekki 2,7 eins og fékkst þegar miðað var við þá nærri 11 milljarða sem stjórnvöld hafa gert fyrir að veiðigjöldin yrðu á fiskveiðiárinu 2017-18.  

Þar með breytast krónutölurnar í því sem hér fer að framan, en ekki samt hlutfallstölurnar.

Tíu stærstu útgerðirnar fengju þar með væntanlega 850 milljóna lækkun, þær tuttugu stærstu nærri 1,2 milljarða og þær fimmtíu stærstu nærri 1,5 milljarða.