föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Staðsetning þorsks með GPS, bergmálstækni og rafeindamerkjum

26. mars 2008 kl. 14:47

Á árinu 2004 voru 302 þorskar merktir hér við land með svokölluðum staðsetningarmerkjum eða GPS-merkjum, en slík merki geta numið og geymt staðsetningu, sem send er frá nálægu skipi. Ólafur Karvel Pálsson fiskifræðingur greinir frá niðurstöðunum í erindi í málstofu Hafrannsóknastofnunar næstkomandi föstudag.

Í útdrætti úr erindinu sem birt er á vef Hafró segir:

,,199 fiskar voru merktir í apríl og maí á veiðisvæðum við Selvogsbanka og Eldeyjarbanka og 103 í október í Mýrabug. Merkin sem notuð voru í fyrri merkingunni reyndust gölluð, en í seinni merkingunni virkuðu merkin eðlilega. Hljóðmerki voru send frá rannsóknaskipi í maí, júlí-ágúst og október 2004 og í febrúar-mars 2005.

Úr merkingunni í apríl-maí hafa 67 merki endurheimst (33.7%) og námu átta þeirra staðsetningu, sex í maí og eitt í október 2004 og eitt í febrúar-mars 2005. Þessi merki voru staðsett á grunnslóð suðvestan og sunnan lands.

Úr merkingunni í október hafa 36 merki endurheimst (35.0%), öll á grunnslóð og flest (27) í Mýrabug í námunda við merkingastað. Sex merki endurheimtust annars staðar, þar af þrjú fyrir norðaustan og norðan land. 33 merki skráðu dýpi og hita allan tímann í sjó, og 22 námu staðsetningu.

Þorskur sem endurheimtist í Mýrabug sýndi takmarkað far með tilliti til dýpis og hélt sig að mestu ofan 200 m dýpis, en víkkaði útbreiðslusvið sitt nokkuð á kaldasta tíma ársins í febrúar og mars. Fiskurinn hélt sig lengst af í tiltölulega hlýjum sjó (>6°C), en umhverfishitinn lækkaði þó talsvert í janúar-mars.

Tveir fiskar, merktir í Mýrabug, endurheimtust norðan lands, annar við Eyjafjörð í mars 2006 og hinn í Þistilfirði í maí 2006. Þeir sýndu mjög keimlíkt far með tilliti til dýpis og umhverfishita og virðast báðir hafa hrygnt í fremur köldum sjó (~3°C) í apríl-maí 2005, en héldu sig í mun hlýrri sjó mestan hluta ársins, þ.e. við svipað hitastig og mælist við Stokksnes.

Með hliðsjón af þessu er sett fram tilgáta um göngumynstur þorsks, í þá veru að fiskurinn gangi norður fyrir land til hrygningar á tímabilinu mars til maí, en dvelji meiri hluta ársins fyrir sunnan land í Mýrabug. Drægni GPS-hljóðsendinga var metin á grundvelli staðsetninga í Mýrabug og reyndist vera um 3 km.

Erindið er flutt í fundarsal á 1. hæð að Skúlagötu 4 klukkan 12,30 föstudaginn 28. apríl og eru allir velkomnir.