þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnir í 100 starfsmenn á árinu

Guðjón Guðmundsson
2. maí 2019 kl. 12:15

Úr samsetningarsal Völku í Vesturvör í Kópavogi. Mynd/Valka

Valka hefur selt talsvert af vélum til Noregs, þar á meðal til laxeldisfyrirtækja, og þar er reyndar stærsti markaður fyrirtækisins að Íslandi undanskildu.

Hátæknifyrirtækið Valka er dæmi um hugmynd eins manns sem verður að stóru fyrirtæki í útrás. Helgi Hjálmarsson stofnaði fyrirtækið árið 2003 í bílskúr og núna 16 árum síðar er Valka að selja hátæknivæddar vatnskurðarvélar og vinnslulínur til tíu landa í N-Ameríku og Evrópu. Á þessu ári stefnir í að starfsmannafjöldinn verði farinn að nálgast á annað  hundraðið. Leifur Geir Hafsteinsson var nýlega ráðinn mannauðsstjóri fyrirtækisins sem hann segir að eigi eftir að vaxa mikið á komandi misserum.

Eitt af fyrstu verkum Leifs Geirs var að auglýsa eftir átta manns til starfa. Hann segir að það hafi verið mikilvægt að geta sent út þau skilaboð, á sama tíma og töluvert hefur verið um fjöldauppsagnir, að staðan væri ekki slæm allsstaðar í samfélaginu.

„Það er allt á blússandi siglingu hjá Völku og við erum að horfa til framtíðar. Við erum meðal annars að leita að sviðsstjóra þjónustusviðs sem verður yfirmaður þjónustumála hjá Völku. Verkefni hans verður að draga upp mynd af því hvernig við ætlum að þjónusta okkar viðskiptavini og vélarnar á heimsvísu. Við höfum komið okkur fyrir á markaði í tíu löndum og við þurfum að sinna þjónustu bæði gagnvart vélrænum hlutum tækjanna og hugbúnaði. Það er auðveldara um vik með hugbúnaðinn því það er hægt að tengjast vélunum rafrænt héðan og uppfæra hluti. En mannshöndin kemur að því þegar skipta þarf um íhluti í vélunum og það þarf að skipuleggja vel,“ segir Leifur Geir.

Valka hefur selt talsvert af vélum til Noregs, þar á meðal til laxeldisfyrirtækja, og þar er reyndar stærsti markaður fyrirtækisins að Íslandi undanskildu. Leifur Geir segir ljóst að tækifæri til framtíðar liggi meðal annars í framleiðslu á vinnslubúnaði fyrir fiskeldisfyrirtæki.

40-50% vöxtur

Valka flutti í nýtt húsnæði í Vesturvör í Kópavogi í apríl á síðasta ári og við opnun hússins var tilkynnt um stærsta samninginn fram að því. Samningurinn fólst í framleiðslu á vinnslubúnaði fyrir landvinnslu Samherja á Dalvík og Útgerðarfélags Akureyrar og hljóðaði upp á 2,5 milljarða króna. Síðar á sama ári samdi Valka við rússnesku útgerðina Murman um uppsetningu á fullkomnustu fiskvinnslu Rússlands og hljóðaði samningurinn upp á 1,3 milljarða króna. Velta Völku á síðasta ári var yfir 2 milljarðar króna. Á þessu ári er reiknað með 40-50% vexti.

Leifur Geir segir að Valka hafi fengið einstakt tækifæri til þess að þróa sínar vörur í samstarfi við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki á heimsmælikvarða. Það hafi verið fyrirtækinu afar mikilvægt að afla sér reynslu á heimamarkaði með þessum hætti áður en lagt var í útrásina.

Hann segir að fyrirtækið hafi vaxið hratt á síðustu árum og nú sé orðið nauðsynlegt að koma skipulagi á þjónustu og annan rekstur upp á næsta stig. Þó vöxturinn framundan verði ekki nema brot af því sem hann hefur verið þá þýðir það að fyrirtækið stækki mjög mikið. Þess vegna sé nauðsynlegt að til staðar sé sterkt skipulag sem ræður við stækkunina.

Auk vatnskurðarvélanna, sem eru krúnudjásnin í framleiðslulínu Völku, framleiðir fyrirtækið einnig snyrtilínur, flokkara, vogir og fleira. Fyrsta hugmynd Helga Hjálmarssonar að vatnskurðarvélinni fæddist árið 2006 og Valka seldi fyrstu vélina árið 2011. Vatnskurðarvélarnar hafa þróast síðan þetta var. Þær búa yfir miklum sveigjanleika og ráða við hallandi vatnskurð sem býður upp á langskurð, þverskurð, hallandi skurð, skurð á fiski með roði og jafnvel bitaskurð í mynstrum. Vélarnar bjóða upp á betri nýtingu á hráefni og aukið virði framleiðslunnar.

Allur heimurinn markaðurinn

„Það voru 50 starfsmenn hjá Völku fyrir fimmtán mánuðum en þeir eru að nálgast 90 talsins núna. Fyrir lok þessa árs verða þeir örugglega orðnir 100. Það eru þrír hópar sem mynda uppistöðuna í Völku, þ.e.a.s. iðnaðarmenn og þá sérstaklega vélsmiðir, stálsmiðir og rafvirkjar, tækni- og verkfræðingar og þriðji hópurinn er hugbúnaðarfólk sem skrifar hugbúnaðinn sem stýrir vélunum og hugbúnað sem heldur utan um framleiðsluna. Það er að fjölga í öllum þessum hópum hjá okkur.“

Landlægur skortur hefur verið á iðnaðarmönnum í landinu um langt skeið en Leifur Geir segir það ekki hafa komið að sök og Valka sé orðinn mjög eftirsóttur vinnustaður.  Framleiðslan fer öll fram hérlendis og ekki stendur til að það breytist. Fyrirtækið nýtir sér þjónustu verktaka að talsverðu leyti til þess að létta á mesta álaginu.

Leifur Geir segir allan heiminn vera markaðssvæði Völku og margt sé nú í pípunum varðandi verkefni.