sunnudagur, 9. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnir í smíði á 100.000 brettum hjá Tandrabergi

2. janúar 2018 kl. 07:00

Einar Birgir Kristjánsson, eigandi Tandrabergs. MYND/GUGU

Fyrirtæki sem hvílir á mörgum stoðum

 

Tandraberg á Eskifirði er skýrt dæmi um þau afleiddu störf sem við verða til í kringum sjávarútveginn. Undir fyrirtækinu eru margar stoðir sem allar tengjast á einn eða annan hátt greininni. Einar Birgir Kristjánsson var áður stýrimaður á togurunum en fjölskyldan togaði hann í land. Nú er fyrirtæki hans leiðandi á landsvísu í framleiðslu á brettum fyrir sjávarútveginn.

 

gugu@fiskifrettir.is

Upphafið má rekja til ársins 2001 þegar fyrirtækið keypti gamalt hús á Norðfirði og fór að slægja fisk af smábátum. Í fyrstu var Einar Birgir einn síns liðs við þetta en fleiri bættust svo í hópinn. Hann segir að þetta hafi reyndar verið barningur en í framhaldinu hafi verið farið út í fiskvinnslu undir nafni fyrirtækisins á Norðfirði og síðar á Eskifirði, einnig var gerður út smábátur um tíma.

Síðasti böðullinn

Skemmtileg saga er af tilurð nafns fyrirtækisins. Sonur Einars Birgis hafði verið að lesa um Björn Tandra í samfélagsfræði í skóla sínum en sá maður var síðasti böðullinn á Austurlandi. Eiginkonan heillaðist af nafninu og stukku á það. Síðar urðu þau breyta því í Tandraberg vegna þess að það þótti of skylt nafni fyrirtækisins Tandurs.

„Við sjáum um landanir hérna á Eskifirði og Norðfirði og af og til líka á Fáskrúðsfirði þegar mikið liggur við. Verkefnin hafa líka verið ærin hér á Eskifirði eftir að Eskja tók í notkun nýja frystihúsið. Við höfum keyrt fisk úr frystiklefunum og milli klefa og séð um útskipanir á afurðum. Við erum með tíu lyftara og fjóra vörubíla,“ segir Einar Birgir.

Verkefnin eru þó talsvert árstíðabundin svo Tandraberg er með allar klær úti til þess að halda uppi góðri verkefnastöðu. Mikið er að gera í ágúst, september, október og fram í nóvember. Þá tekur við rólegri tími fram að loðnuvertíð þegar allt fer á fullt á ný. Tandraberg sér einnig um löndun á kolmunna í bræðslu.

Margar matarholur

„Svo kemur steindauður tími frá miðjum mars og fram í miðjan júlí. En við erum með marga matarholuna. Við sjáum meðal annars um að skipa upp súráli fyrir Alcoa á Reyðarfirði og það skilar fjórum ársverkum. Þá stöndum við í tilraunastarfsemi hérna í næsta húsi við að kurla timbur og þurrka til notkunar í hesthúsum. Við sjáum líka kyndistöð í Hallormsstað fyrir kurli. Kurlið vinnum við úr ónýtum brettum og umbúðatimbri frá Alcoa.“

Segja má að um umhverfisvæna starfsemi sé að ræða því Tandraberg fær timbrið án endurgjalds sem annars þyrfti að flytja landleiðina til Reykjavíkur til förgunar með tilheyrandi kolefnafótspori. Einar Birgir segir þó helsta ókostinn vera það ójafnvægi sem er á verkefnastöðu fyrirtækisins eftir árstímum. Umhverfið fyrir austan bjóði ekki upp á annað en fastráðna starfsmenn því skortur er á vinnuafli í landshlutanum. Atvinnuleysi hefur nánast verið óþekkt þarna frá árinu 2004.

30 manns starfa hjá Tandraberg og er fyrirtækið því hlutfallslega stór atvinnurekandi á svæðinu. Starf Einars Birgis felst ekki síst í því að afla verkefna og hann hefur verið iðjusamur á því sviði.

Brettasmíðin vindur upp á sig

Brettasmíði er ein af stoðunum í rekstrinum en utan um þá starfsemi var stofnað annað fyrirtæki sem heitir Tandraberg bretti ehf. Það er í meirihlutaeigu Einars Birgis og smíðar bretti í Reykjavík, Húsavík og á Norðfirði. Umsvifin eru mest á Norðfirði. Þar lét fyrirtækið reisa 600 fermetra verksmiðju sem tekin var í notkun árið 2015. Hún er eina brettaverksmiðjan á landinu með vél sem setur saman brettin. Þar voru smíðuð 25.000 bretti í september sem er það mesta á einum mánuði. Í ágúst var líka sett met þegar smíðuð voru 22.000 bretti. Fyrir þann tíma var metið 13.000 bretti. Samtals framleiddi Tandraberg bretti 40.000 bretti á stöðunum þremur í ágúst.

„Það er stígandi í framleiðslunni hérna fyrir austan vegna aukinnar veltu sjávarútvegsins. Hingað kemur líka fjöldi aðkomuskipa til að landa á vertíðinni sem vantar líka bretti. Þetta fyrirtæki var stofnað til þess að fá jafnari veltu yfir allt árið. Það getur tekið marga mánuði að lagera sig upp af efni fyrir framleiðslu á allt að 50.000 brettum á mánuði. Við fáum efnið tilsniðið frá Rússlandi og það þarf að skipuleggja vel innkaupin.“

5 menn framleiða 1.000 bretti á dag

Til Tandrabergs bretta berast að jafnaði 6-8 gámar af timbri til brettagerðarinnar á mánuði eða hátt í 80 gámar á ári. Á Norðfirði er vél sem smíðar brettin og það eina sem mannshöndin þarf að gera er að raða efni inn í hana. Þetta er eina vélin sinnar gerðar á landinu og var fjárfesting upp á um 50 milljónir króna. Á Norðfirði starfa fimm manns við verksmiðjuna og ná að smíða 950-1.000 bretti á dag. Talið var fullt starfsverk fyrir einn mann að smíða 90 bretti á dag í höndunum. Afköstin hafa því meira en tvöfaldast með vélinni. Á þessu ári hafa verið smíðuð 80.000 bretti þrátt fyrir fremur kraftlitla loðnuvertíð. Útlit er fyrir að framleiðslan nái 100.000 brettum áður en árið er liðið.

„Við gætum aldrei annað þörfinni fyrir bretti ef verksmiðjan væri ekki til staðar. Við framleiddum 25.000 bretti í nýliðnum september en með gamla laginu hefði slík framleiðsla krafist 260-270 dagsverka. Brettaframleiðslan fer allvíða en langflest bretti eru nýtt af Síldarvinnslunni og Eskju. Nokkuð fer til Loðnuvinnslunnar en minna til annarra fyrirtækja. Þessi bretti eru notuð jafnóðum og þau eru framleidd og á notkuninni má sjá að framleiðslan hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum í Fjarðabyggð, ásamt því sem vinnsluskip landa þar, er tæplega 31.000 tonn af frosnum afurðum í septembermánuði einum. Þetta eru ótrúlegar tölur. Síldarvinnslan notaði rúmlega 12.500 bretti í september og Eskja rúmlega 9.300, en Eskja setur meira af afurðum á hvert bretti.“

Vantar fólk

„Hér vinna menn mjög mikið og það vantar fólk. Það vantar líka húsnæði og leiguhúsnæði er nánast ófáanlegt. Það þarf líka einhverjar aðgerðir til þess að fá fólk til þess að flytja hingað. Stór hluti starfsmanna flestra fyrirtækjanna hérna eru af erlendu bergi brotinn. Hjá okkur er hlutfall erlendra starfsmanna 85% en þeir sem hafa verið lengst hjá okkur hafa verið í tólf ár. Þeir eru nánast orðnir Íslendingar og hafa fest hér rætur. En það byggir enginn úti á landi vegna þess að byggingarkostnaður er mun hærri en markaðsverð og veðhæfnin lítil.“

Þegar verksmiðjan á Norðfirði var reist fékkst lán sem dekkaði 40% af kostnaðarverði framkvæmdarinnar. Ástæðan fyrir því að ekki fékkst hærra er sú að lánastofnanir fá fasteignasala til að verðmeta atvinnuhúsnæði áður en lán er veitt. Matið byggist á síðustu sölum og þar er oftast um að ræða gömul hús með óhagstæðri staðsetningu sem seljast á hrakvirði.

„Þetta stendur atvinnuuppbyggingu úti á landi fyrir þrifum. Við erum svo lánsöm að hér eru stór fyrirtæki sem geta fjármagnað sig sjálf. Minni fyrirtæki eiga mjög erfitt með að byggja undir starfsemi sína og fjármagna 60% af byggingarkostnaði sjálf.“