miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnt að sérstöku fiskveiðistjórnunarkerfi fyrir Skotland

3. september 2008 kl. 09:26

Skoska heimastjórnin stefnir að því að koma á fót sérstöku fiskveiðistjórnunarkerfi fyrir Skotland en hingað til hefur sameiginlegt veiðikerfi gilt fyrir Bretland allt.

Nýja kerfinu er ætlað að tryggja að veiðiheimildirnar haldist áfram í minni sjávarplássum og í eigu sjómannanna sem þaðan stunda veiðar.

Breska fiskveiðistjórnunarkerfið hefur verið að færast í átt til framseljanlegra einstaklingskvóta líkt og á Íslandi og víðar. Skoski þjóðarflokkurinn sem nú stýrir minnihlutastjórn í Skotlandi segist óttast að ef fram haldi sem horfi muni veiðileyfi og veiðiheimildir sogast frá smærri aðilum í skoskum sjávarútvegi yfir til fárra auðugra útgerðarfyrirtækja annars staðar á Bretlandi.

Spenna hefur ríkt milli stjórnvalda í Edinborg og London vegna endurskoðunar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og eftir að Skoski þjóðarflokkurinn tók við völdum í Skotlandi hefur hún færst upp á yfirborðið.

Samtök útgerðarmanna á Englandi [NFFO] hafa mótmælt harðlega þessum áformum og segja að félagsmenn þeirra hafi ríkra hagsmuna að gæta enda hafi þeir margvísleg tengsl við skoskan sjávarútveg. Sérstakt veiðistjórnunarkerfi fyrir Skotland myndi grafa undan verðmæti veiðiheimilda og stöðugleika alls kerfisins.

Leiðarahöfundur breska sjávarútvegsblaðsins Fishing News hvetur til þess að deilurnar um fiskveiðistjórnunarkerfi framtíðarinnar verði leystar á landsvísu svo tryggja megi öllum sjómönnum rétt til lífsviðurværis. Þessi litla atvinnugrein megi ekki við klofningi.