sunnudagur, 9. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stór mál tekin fyrir í vetur

27. desember 2017 kl. 17:00

Sjávarútvegsráðherra hefur kynnt sex þingmál til sögunnar – sum stór og umdeild

Lögum samkvæmt var stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við upphaf þings fylgt eftir með því að birta yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hennar hyggst leggja fram á komandi þingvetri.  Ríkisstjórnin mun jafnframt við upphaf vetrarþings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi.

Sex mál
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á tíu mál á þeim lista og varða sex þeirra sjávarútvegsmál og fara þau hér á eftir ásamt skýringum.

-          Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla. Með frumvarpinu verður lögð til breytt löggjöf eftir heildarendurskoðun núgildandi laga. (Mars).

-          Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, o.fl. Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi hefur lokið störfum og skilað tillögum að lagabreytingum. Eftir skoðun á tillögum vinnuhópsins verður lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskeldi. (Febrúar).

-          Frumvarp til laga um fyrirkomulag gjaldtöku fiskveiðiheimilda. Núgildandi lög um veiðigjöld gilda til loka fiskveiðiársins 2017/2018. Nauðsynlegt er að vinna að framtíðarskipulagi um veiðigjöld og hvað tekur við að þessum tíma liðnum, þ.e. hvort gildistími laganna í núverandi mynd verði framlengdur eða hvort taka eigi upp nýtt kerfi við innheimtu veiðigjalda. (Mars).

-          Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar. Lagðar eru til breytingar á aðferðum og eftirliti með vigtun sjávarafla, skráningu sjávarafla (afladagbækur) og viðurlögum. Jafnframt er lagt til að Fiskistofa fái heimildir til að innheimta gjald vegna viðbótareftirlits og leggja á stjórnvaldssektir og auk þess ákvæði sem kveður á um hitastigskröfur svo að viðhalda megi gæðum afla með það að markmiði að hámarka verðmæti sjávarafurða. (Mars).

-          Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild fyrir ráðherra til að takmarka álaveiðar samkvæmt ráðgjöf um stofnstærð og veiðiálag. (Janúar).

-          Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð. Þörf hefur verið talin á að endurskoða ákvæði laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð. Starfshópur hefur skilað af sér tillögum um breytingar. Önnur atriði geta einnig komið til greina í endurskoðun þessari. (Febrúar).