fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Strandveiðifrumvarpið samþykkt á þingi

26. apríl 2018 kl. 15:22

Strandveiðileyfi verða að mestu bundin við heimilisfesti skipa til að draga úr möguleikum þess að skip verði færð á milli svæða.

Alþingi samþykkti rétt í þessu með 36 atkvæðum frumvarp atvinnuveganefndar um breytt fyrirkomulag strandveiða, sem gildir til bráðabirgða nú í sumar.

Í umræðum á þingi kom fram að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var hvorki kallaður á fund atvinnuveganefndar vegna málsins né tjáði hann sig um það á þingi.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, sagði það til marks um að verið sé að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Atvinnuveganefnd hafi sjálf haft þetta mál á sinni könnu.

Frumvarp atvinnuveganefndar var lagt fram 23. mars og voru gerðar margvíslegar athugasemdir við það. Smábátasjómenn sjálfir fögnuðu margir frumvarpinu en hörð gagnrýni heyrðist einnig. 

Nefndin kom síðan þann 10. apríl með breytingartillögu þar sem lagt var til að ráðherra en ekki Fiskistofa skyldi hafa heimild til að stöðva veiðarnar farið magnið fram yfir leyfðan hámarksafla.  

Þó er gert ráð fyrir að ráðherra hafi jafnframt heimild til þess að auka heildarveiðina, og verður sú heimild gefin í reglugerð sem boðað er að ráðherra gefi út í kjölfar þessara laga.

Jafnframt var ákveðið að veiddur ufsi teljist ekki til hámarksafla, heldur þurfi að landa honum sem VS-afla og selja á uppboðsmarkaði. Útgerðin fái þó 80 prósent verðsins í sinn hlut. Auk þess er 700 tonna hámark sett á ufsaveiðar.

Þá var á síðustu stundu ákveðið að binda veitingu strandveiðileyfa við það svæði sem heimilisfesti útgerða var skráð 23. apríl síðastliðinn, en þann dag opnaði Fiskistofa fyrir skráningu inn í strandveiðikerfið í ár. Þó má útgerð velja sér það svæði sem hún hefur stundað veiðar frá í tvö ár af sl. þremur árum óháð heimilisfesti í ár.“

Lilja Rafney segir þetta gert til að bregðast við áhyggjum af því að skip myndu færa sig á milli svæða, sérstaklega þá yfir á A-svæði þar sem afli hefur verið mestur.

Boðað hefur verið að leyfður heildarafli sumarsins verði 11.200 tonn, sem er 2.000 tonnum meira en á síðasta ári, en jafnframt gefin von um að hugsanlega megi auka enn við heildaraflann.

Lilja Rafney hefur sagt í umræðum að aflinn verði auk þess verðmætari vegna þess að ufsinn er ekki talinn með. 

Skoðað aftur í haust
„Síðan tökum við þetta mál upp í haust og horfum til þess árangurs sem náðst hefur,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, í umræðum á þingi áðan, „til þess að byggja upp strandveiðikerfið til framtíðar.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir nefndin markmið þess fyrst og fremst vera að auka öryggi smábátasjómanna með því að tryggja ákveðinn dagafjölda í hverjum mánuði. Það muni draga úr líkum á ólympískum veiðum þar sem sjómenn keppist um við að veiða aflann á sem skemmstum tíma.

Smábátasjómenn hafa hins vegar margir talið hættu á því að aflinn klárist áður en vertíðinni lýkur. Þá þurfi að stöðva veiðarnar og vitneskjan um það muni ýta undir ólympískar veiðar þvert á markmið laganna.

Landsamband smábátasjómanna (LS) lagði áherslu á að strandveiðisjómenn verði að „hafa tryggingu um að ekki komi til stöðvunar veiða.“ Að öðrum kosti sé hætt við því að hið breytta fyrirkomulag leiði til aukinnar sóknar með tilheyrandi áhættu.

Þá sagðist LS telja með öllu óþarft að hafa ákvæði um heimild til stöðvunar í lögunum þar sem allir útreikningar bendi til þess að ætlaður afli nægi.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gagnrýndu frumvarpið, sögðu breytingarnar vanhugsaðar og bjóða upp á lausatök við stjórn fiskveiða, enda hafi „ávallt verið miklum vandkvæðum bundið að stöðva veiðar smábáta í dagakerfi þegar tilsettum afla hefur verið náð.“

gudsteinn@fiskifrettir.is