föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Súlan leitar loðnu á Rifsbanka

19. janúar 2010 kl. 12:04

,,Loðnuskipið Súlan EA hefur að undanförnu verið að kanna grunnslóðina norður á Rifsbanka en ekkert fundið. Hún mun væntanlega einnig skoða svæðið þar vestur af þangað til brælir. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson liggur hins vegar inni á Reyðarfirði og mun fara út á ný á fimmtudagskvöld, ef veður leyfir.”

Þetta sagði Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann nú skömmu fyrir hádegi í dag til þess að leita frétta af loðnuleit. Hann sagði að spáð væri ljótum lægðum á næstunni og kynni það að raska áætlunum skipanna. Næsta verkefni Árna Friðrikssonar væri að mæla loðnuna í Langaneskantinum sem er að ganga suður með norðanverðum Austfjörðum.

Loðnugangan, sem var úti fyrir Austfjörðum og mældist 180 þúsund tonn, var búin að stinga sér inn í hlýja sjóinn úti af Suðausturlandi um síðustu helgi. Ekki verður reynt að mæla hana aftur fyrr en hún kemur upp að suðurströndinni.