fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sungið fyrir harðfiskinn

Guðjón Guðmundsson
10. mars 2019 kl. 09:00

Heimir Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Darra ehf. Mynd/Þorgeir Baldursson

Darri á Grenivík framleiðir úr 500 tonnum af fiski á ári.

Darri ehf. á Grenivík framleiðir harðfisk úr um 500 tonnum af slægðum fiski á hverju ári. Darri er einn af stærstu atvinnuveitendum á staðnum.

Heimir Ásgeirsson og Friðbjörn Axel Pétursson stofnuðu Darra ehf. í nóvember 1996 þegar þeir keyptu litla harðfiskvinnslu í Vestmannaeyjum sem framleiddi Eyjabita.  Nú flytur fyrirtækið út um 40% framleiðslunnar til Noregs, Færeyja og Grænlands og er farið að framleiða nammi úr harðfiski fyrir íslensk fyrirtæki sem gefa æskulýðnum þegar hann knýr dyra og syngur á öskudag.

Kaupunum á Eyjabita fylgdu tæki og tól ásamt þurrklefa en á þessum 22 árum sem fyrirtækið hefur starfað hefur nánast allur tækjabúnaður verið endurnýjaður og fyrirtækið hefur stækkað jafnt og þétt. Það framleiðir þó ennþá harðfisk undir vörumerkinu Eyjabiti en varan sem fer í útflutning heitir Vikingens Torfisk Snack. Heimir segir að á þessum árum hafi neyslumynstrið breyst. Neyslan hafi aukist í tengslum við ferðlög innanlands og vinsælt er meðal eldri borgara að taka með sér harðfisk þegar haldið er til sólarlanda. Áður fyrr var helsta umræðan um harðfisk ávallt í kringum þorrann en nú sé það alveg með öðrum hætti og meiri sala sé yfir sumarmánuðina en yfir þorrann.

„Við erum með mörg vörunúmer og framleiðum úr þorski, ýsu og steinbít . Salan erlendis er um það bil 40% af framleiðslunni, það er að segja til Noregs og Færeyja og aðeins fer líka til Grænlands. Það er ekki mikil harðfiskframleiðsla í þessum löndum en þeir kunna vel að meta vöruna. Það hefur gengið ágætlega að selja Norðmönnum harðfisk og þeir kunna alveg að neyta hans. Sama á við um Færeyinga sem neyta sennilega meira af harðfiski á hvert mannsbarn en Íslendingar. Þar er harðfiskurinn meira notaður sem hluti af máltíð með spiki, heitum kartöflum, eggjum og síld,“ segir Heimir.

Lítil nýting

Hráefnið til framleiðslunnar fæst á fiskmörkuðum og í beinum viðskiptum. Mörgum finnst harðfiskur algjört lostæti en óar við háu kílóverði. En þá ber að hafa í huga að nýtingin á hráefninu er einkar lítil. Af þeim 500 tonnum af slægðum fisk sem Darri kaupir árlega næst að framleiða og selja um 41 til 42 tonn. Nýtingin er því ekki nema 8,2-8,3%. Harðfiskur er líka „massíft“ prótein og lítið annað.

Dæmigerð vika hjá Darra er þannig að fiskur er keyptur á sunnudegi eða mánudegi og kemur í hús á þriðjudagsmorgni. Þá er hafist handa við að hausa hann, flaka og snyrta. Þegar því er öllu lokið tveimur dögum síðar fer fiskurinn í þurrklefa og er þar í fimm sólarhringa. Verkunin tekur því heila viku. Þegar hann kemur úr þurrki er hann geymdur frystur og unninn í pakkningar eftir hendinni út úr frysti. Um 60% af allri framleiðslunni fer á innanlandsmarkað eða nálægt um 25 tonn. Um 13 heilsárstörf eru hjá Darra sem gerir það að eitt af stærri fyrirtækjunum í þorpinu.

7.000 börn komast á bragðið

„Þetta hefur verið fastur punktur hérna í þorpinu öll þessi ár og okkur hefur alltaf gengið vel að selja allt sem við framleiðum. Ég er á leiðinni til Akureyrar núna í tilefni öskudagsins. Við höfum verið að pakka öskudagsnammi í einar 7 þúsund einingar. Þetta eru litlar pakkningar með harðfiski sem fyrirtæki kaupa og dreifa meðal barnanna. Það verður að byrja að berja stálið snemma. Þetta nammi hefur líkað mjög vel og við erum farnir að selja þessar pakkningar út um allt land. Eins og hefðin segir til um fara börnin í fyrirtækin og syngja og þiggja nammi í staðinn. Það eru 7 þúsund krakkar að fá svona nammi svo þau altént komast á bragðið,“ segir Heimir.