miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svikamylla sem fær að þrífast

Guðjón Guðmundsson
23. desember 2018 kl. 12:00

Arnar Atlason, framkvæmdastjóri Tor ehf. og formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.

Gagnrýna yfirvöld harðlega fyrir aðgerðarleysi gagnvart lóðrétt samþættum fyrirtækjum

Tor ehf. fiskvinnsla hóf starfsemi 1995. Fiskvinnslan hefur alla tíð verið að Eyrartröð í Hafnarfirði en gangurinn hefur, eins og gengur og gerist, verið upp og niður. Fyrirtækið á ekki veiðiheimildir og sækir sitt hráefni á fiskmarkaði. Miklir erfiðleikar hafa steðjað að sjálfstæðri fiskvinnslu og mörg fyrirtæki lagt upp laupana.

Arnar Atlason, framkvæmdastjóri Tor ehf. og formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, segir ástæðuna vera ójafna samkeppnisstöðu sem helgast af tvenns konar fiskverði í landinu og samkeppnismun vegna þess. Afleiðingin er sú að sjálfstæðum fiskvinnslum þrýtur örendið.

Arnar segir trausta, erlenda viðskiptavini kannski verðmætustu eign Tor og það sem haldi lífi í fyrirtækinu. Starfsmannafjöldinn hefur lengi vel verið í kringum 25 manns. Þróunin í rekstrinum frá því Arnar hóf störf fyrir átta árum hefur mest tengst breytingu á framleiðsluvörum. Þegar hann byrjaði var saltfiskvinnsla um helmingur af allri vinnslunni en nú er þar ekki lengur framleiddur saltfiskur.

„Það má eiginlega segja að frystur fiskur hafi haldið sér en ferskur fiskur hafi komið í staðinn fyrir saltfiskinn. Þessi þróun nær til annarra fiskvinnslufyrirtækja ekki síður en okkar.“

Þetta má rekja meðal annars til efnahagssamdrátts á Spáni í kringum 2006. Spánn var og er helsti kaupandi saltfiskafurða frá Íslandi. Kaupgetan minnkaði og markaðurinn dróst saman. Saltfiskvinnsla er fjárfrekur matvælaiðnaður og afurðirnar liggja lengi á lager. 90 daga greiðslufrestur var á Spánarviðskiptunum í verðbólguumhverfi á Íslandi. Hver króna í saltfiski er sex mánuði í veltu meðan greiðslur fyrir ferskan fisk skila sér til framleiðanda á einni viku. Fyrir efnahagssamdráttinn á Spáni fékk Tor ehf. allt að 14,50 evrur fyrir saltfiskflök en eftir hrun féll verðið niður í 6-7 evrur. Núna er verðið í kringum 8-9 evrur. Svipað verð er núna fyrir ferskan fisk en þá er ekki tekið tillit til þeirrar hráefnisrýrnunar sem verður í saltfiskvinnslunni.

Helmingi lægra fiskverð

„Við störfum á samkeppnismarkaði og kaupum allan okkar fisk á fiskmarkaði. Hjá okkur er þetta bara spurning um að lifa eða deyja. Annað hvort höfum við afkomu af því sem við gerum við fiskinn eða ekki. Við viljum helst kaupa allt á fiskmarkaði en tökum einstöku sinnum útúrdúra með viðskiptum við báta sem hafa landað beint hjá okkur. En grunnstefið er að kaupa á markaði og þetta hefur verið í kringum 3.000 tonn á ári. Við höfum verið mest í skarkola, undirmálsþorski og undirmálsýsu og núna undanfarið höfum við unnið talsvert af sólkola og stærri þorsk. Um það bil helmingur fer í frystingu og annað er flutt út ferskt,“ segir Arnar.

Arnar er einnig formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda. Hann segir að með sölu fisks á fiskmarkaði sé þjóðarhag og hag fiskframleiðenda best komið. Oft komi í raun ekki fram hvert verðgildi auðlindarinnar er og hver verðmætasköpunin er í vinnslunni. Oft hefur verið bent á að milliverðlagning gefi kolranga mynd af raunvirði hráefnisins.

„Það er oft mjög erfitt að átta sig á þessu í reikningum samþættra félaga og sjá svart á hvítu hvar verðmætin verða til. Við vitum það að uppgjörsverð til sjómanna hjá þeim útgerðum sem miða við verðlagsstofuverð getur verið allt að helmingi lægra en fiskverð á fiskmörkuðum. Þetta er reyndar mjög algengt. Síðustu kjarasamningar sjómanna kváðu bara hreinlega á um afslátt frá fiskmarkaðsverði, með öðrum orðum að sjómenn sem fá greitt samkvæmt Verðlagsstofu, fá aldrei full laun fyrir vinnu sína. Þeir gáfu afslátt af laununum sínum í síðustu kjarasamningum. Það er mikið umhugsunarefni hvort þetta standist lög. Í lögum um kjarasamninga sjómanna stendur að útgerðarmanni beri að selja gegn hæsta verði. Öll þessi hugmyndafræði er því á mjög gráu svæði,“ segir Arnar.

Hann bendir á að Samkeppniseftirlitið hafi margoft fjallað um þetta tiltekna mál og gefið út mjög skýrt álit sem vísað var til ráðherra árið 2012. Þar var kveðið á um að ráðherra skyldi laga þá samkeppnisstöðu sem þarna kæmi fram.

Eitt fiskverð

„Síðan eru liðin sex ár og fjórir ráðherrar komið og farið. Við skulum ekki segja að þetta sé vonlaus barátta því allt er breytingum háð. En stundum fallast manni hendur. Við búum vissulega í landi þar sem fiskveiðistjórnunarkerfið, aflaheimildirnar og auðlindin sem fiskurinn er heldur uppi stórum hluta hagkerfisins. En ég hef oft sagt að mér þykir það mjög miður að við skulum ekki gera ennþá betur. Það er mikið svigrúm til að gera mikið betur og meira við auðlinda okkar en við höfum gert. Það eitt og sér að hleypa samkeppnisþáttunum betur að til dæmis með því að afmarka betur hráefnisþáttinn; að það sé skýrt hvers virði hann er. Þá er ég að tala um að það sé eitt fiskverð í landinu fyrir sömu tegund af fiski. Það séu ekki afsláttarkjör á fiski því með því er samkeppnisþáttunum kippt úr sambandi. Með því móti geta fyrirtæki selt vöruna á lægra verði en með sömu afkomu. Meðan ekki er tryggt að fiskurinn er seldur hæsta verði í eðlilegu samkeppnisumhverfi er hætta á því að þjóðarhagur versni,“ segir Arnar.

Hann spyr hvort eigi að skipa hærri sess sé litið til réttlætissjónarmiða; fullkomið samkeppnisumhverfi eða rekstraröryggi samþættra fiskvinnsla og útgerða? Hvers vegna eigi samþætt sjávarútvegsfyrirtæki að fá sérmeðferð sem endurspeglast meðal annars í þessu kerfi þar sem eru tvenns konar fiskverð?

„Það blasir við að útgerðin er sterkari þrýstihópur en vinnslan. Mér finnst skorta upp á það að stjórnvöld skoði þau vandamál sem er við að etja í sjávarútvegi. Það er ekki allt í himnalagi. Við getum gert mikið betur og það sem ég tala fyrir er eitt fiskverð, hvort sem landað er á fiskmarkaði eða ekki. Ef það sem þarf til þess að mæta samkeppnissjónarmiðum er að heimila sjómönnum að hámarka virði aflans með því að selja gegn hæsta verði.  Samkeppnismuninn verður að brúa í þessum málum, sérstaklega núna þegar lagt er til að byggja veiðigjöldin á þessum viðskiptum samkvæmt nýju frumvarpi til laga.  Með því mun enn aukast aðstöðumunur útgerða með og án vinnslu."

Ríkisstyrktur útflutningu á óunnum fiski

Annað sem Arnar hefur ítrekað bent á er að horft er framhjá því að fiskur er fluttur óunninn úr landi í stórum stíl. Hann segir að þessi útflutningur sé að aukast. Nú sé til að mynda að lágmarki þriðjungur af öllum skarkolakvótanum fluttur óunninn úr landi. Skarkolakvóti á yfirstandandi fiskveiðiári er um 6.200 tonn og samkvæmt þessu gætu að minnsta kosti 2.000 tonn farið óunnin úr landi. Á árinu 2016 voru um það bil 75 þúsund tonn af fiski flutt óunninn úr  landi, þ.e. þorskur, steinbítur, karfi, langa, blálanga, skarkoli, sólkoli, lúða, grálúða, skötuselur, ýsa, ufsi, hlýri og keila.

„Bara í maímánuði á þessu ári fóru um 500 tonn af skarkola óunnin til Hollands. Annars vegar fer fiskurinn í gáma beint af skipum og hins vegar er skarkolinn keyptur á fiskmörkuðum og sendur beint út. Það þýðir ekkert fyrir okkur að flytja lofræður um öll öflugu sjávarútvegsfyrirtækin og hátæknifyrirtækin og hvað við séum að gera mikil verðmæti úr auðlindinni á sama tíma og útflutningur á óunnum fiski eykst stöðugt. Öruggasta leiðin til þess að minnka arðsemi sjávarútvegs er að flytja auðlindina úr landi,“ segir Arnar.

Það sem ræður þessu, að mati Arnars, er kaupgeta erlendra fiskkaupkaupenda sem búa við betri samkeppnisstöðu í fiskvinnslu en Ísland hefur. Í Evrópu njóti öll sjávarútvegsfyrirtæki ríkisstyrkja á einn eða annan hátt. Útflutningur á óunnum fiski frá Íslandi sé því að einhverju leyti keyrður áfram af ríkisstyrkjum þjóða Evrópusambandsins. Auk þess hafi þróun launakostnaðar á Íslandi verið með allt öðrum hætti en annars staðar í heiminum.

Útflutningsálag

„Við þekkjum atriði eins og tryggingagjald og mótframlög í lífeyrissjóði hefur þróast fram úr öllu hófi. Það er mun meiri stígandi í þróun launakostnaðar en launa á Íslandi. Nú hefur þetta þróast á þann veg að það getur verið útgerðarfyrirtækjum hagfelldara að flytja fiskinn óunninn til landa eins og Póllands og Eystrasaltríkjanna þar sem launakostnaður er allt að fjórfalt til fimmfalt lægri en hér á landi. Það svarar orðið kostnaði að taka á sig þennan kostnað við flutning á aflanum og þar af leiðandi eykst hann með hverju ári. Það er stjórnvalda að grípa inn í þessa þróun. Það er pólitísk ákvörðun að þjóðin verði af þessum verðmætum. Í hinu fullkomna kerfi fer þjóðarhagur og hagur fyrirtækjanna saman. Ef kerfið er ekki fullkomið, eins og ég vil meina að fiskveiðistjórnunarkerfið er ekki, þá getur hagur fyrirtækjanna verið langa vegu frá því að fara saman við þjóðarhag. Ég tel að þjóðarhagur byggi á því að við reynum að gera sem mest verðmæti úr auðlindinni okkar hér heima. Til þess eigum við að nýta alla okkar styrkleika; tækniþekkinguna, vinnsluþekkinguna og mannaflann. En eins og staðan er getur það verið mikið hagfelldara fyrir fyrirtækin að flytja fiskinn óunninn úr landi. Ef þetta er staðreynd þá er aðeins einn aðili sem getur gripið inn í atburðarásina og það er hið opinbera. Það þarf að leiðrétta kerfið á einhvern hátt og sumir hafa bent á þá leið að setja á útflutningsálag. Við náðum að draga verulega úr þessum útflutningi allt fram til ársins 2012 þegar útflutningsálagi var aflétt,“ segir Arnar.

Þorleysi Samkeppnisstofnunar

Hann segir margvíslegar hindranir í vegi sjálfstæðra fiskvinnsla; útflutning í skjóli erlendra ríkisstyrkja og óeðlilega samkeppni við risavaxin íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.

Þessari óeðlilegu samkeppni má best lýsa þannig að mati Arnars:

„Við höfum verið mikið á fiskmarkaði eins og önnur fyrirtæki í okkar sporum. Samþættu fyrirtækin sem eiga kvótann, eiga skip og vinnslu og jafnvel útflutningsfyrirtæki og sölufyrirtæki erlendis. Þessir aðilar kaupa fiskinn af sjálfum sér á afsláttarverði sem er um 25-50% undir fiskmarkaðsverði. Svo landa aðrir útgerðamenn inn á fiskmarkaði og fá mun hærra verð fyrir fiskinn en greiða sjómönnunum mun hærri laun fyrir vikið. Þeir hafa því mun meiri kostnað á móti. Þess vegna eru erfiðleikar í sjálfstæðri útgerð. Svo eru það við sem kaupum inni á fiskmarkaði sem greiðum auðvitað hærri verð og enn hærri þegar samþættu fyrirtækin mæta sem kaupendur á markaði, sem þau gera. Kaupa kannski 5 tonn sem vantar upp á 25 tonna framleiðslu þann daginn af einhverri tegund. Það skiptir þau engu máli á hvaða verði þau kaupa þann fisk en um leið sprengja þau upp fiskmarkaðsverðin. Samþættu fyrirtækin geta með öðrum orðum stýrt verðunum inni á fiskmörkuðunum. Þegar kemur að sölu til endanlegra kaupenda benda samþættu fyrirtækin þeim á fiskmarkaðsverðin og verðleggja sínar afurðir eftir þeim þótt þau kaupi megnið af fiskinum af sjálfum sér á 25-50% lægra verði en fiskmarkaðsverði. Þessi samþætting er auðvitað einungis svikamylla. Í landinu gilda samkeppnislög sem er einmitt ætlað að taka á svona málum. En staðreyndin er bara sú að á Íslandi er nákvæmlega þetta mál undanþegið. Samkeppnisstofnun hefur ekki þorað að taka á þessu máli og ástæðan er pólitík.“

Föst 7% ísprósenta

Arnar segir að þetta leiði óhjákvæmilega til þess að samþættu fyrirtækin munu blómstra og dafna en önnur fyrirtæki utan þessa skipulags deyja. Undanfarið hafi þetta gerst hratt. Fiskvinnslur hafa lagt upp laupana og sjálfstæðir útgerðamenn eigi í vök að verjast. Annað sem hann nefnir er að þegar sjálfstæði útgerðarmaðurinn landi sínu tonni inn á markað sé það eitt tonn. Útgerðir með vinnslu sem landa hjá sjálfum sér hafi heimild til að vigta aflann. Það geti leitt til þess að eitt tonn verði rúmlega 900 kg, eins og dæmin sýna. Einfaldast og skilvirkast sé að öllu sé landað á hafnarvog og föst ísprósenta sem er dregin frá sé 7%. Þetta myndi einfalda allt eftirlit og skilvirkni en þess í stað sé nú farið að ræða um eftirlit með drónum og myndavélum. Með núverandi kerfi sé verið að hygla samþættum sjávarútvegsfyrirtækjum á kostnað sjálfstæðra útgerða sem landa á fiskmörkuðum. Dæmi hafi sýnt fram á að 7-8% munur sé á raunísprósentu og uppgefinni ísprósentu. Þetta lækki öll aflaverðmætistengd gjöld fyrirtækja eins og t.d. laun sjómanna og hafnargjöld.

„Fyrir nákvæmlega 100 árum átti Rockefeller kolanámurnar, flutningaleiðirnar, sölufyrirtækin og alla keðjuna. Lóðrétt og lárétt samþætting birtist í sinni hryllingsmynd, afleiðingin lakari þjóðarhagur vegna hærra verðs til neytenda. Bandaríkjamenn sáu að þetta gat ekki gengið og settu samkeppnislög til þess að stöðva þetta ferli. „Antitrust lögin voru sett fyrir einni öld til höfuðs lóðrétt samþættum fyrirtækjum. Á Íslandi kallast stóru sjávarútvegsfyrirtækin ekki lóðrétt samþætt fyrirtæki heldur „virðiskeðja“.  Það dytti það engum í hug að furstarnir í Saudi-Arabíu þyrftu að eiga olíuuppspretturnar, olíuhreinsunarstöðvarnar, bensínstöðvar og alla keðjuna. Jafnvel í olíuviðskiptum hafa menn áttað sig á því að afmarka þarf hina ýmsu þætti á markaði til þess að greina hvar virðisaukinn verður. Hér höfum við ákveðið að blanda öllu saman og tala um „virðiskeðjuna“ og „afhendingaröryggi“.

Ég get fullyrt að enginn einn aðili er með eins sterkt afhendingaröryggi og fiskmarkaðir á Íslandi.  Við verðum að hafa trú á markaðsöflunum og leyfa hreinni samkeppni að stuðla að auknum þjóðarhag. Ef við höldum áfram á sömu braut munu markmið um aukin hagvöxt byggðan á auknu virði sjávarafurða ekki nást.