miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sýkta síldin drepst þótt hún sé með ummerki eftir gróin sár

4. desember 2009 kl. 15:00

Nýjar mælingar á stofnstærð síldar og rannsóknir á því hvort sýkt síld lifir sjúkdóminn af gefa ekki tilefni til þess að búast megi við frekari veiðum á þessari vertíð, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu

Mælingum á stærð og ástandi íslensku sumargotsíldarinnar er nýlokið. Endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir en samkvæmt bráðabirgðaútreikningum er vísitala stofnstærðar lægri en mældist í október, að því er Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar,segir í samtali við blaðið.

,,Tíðni sýkingar í veiðistofninum er svipuð og verið hefur, eða yfir 40%, en hlutfall mikið sýktrar síldar hefur aukist sem er eðlileg þróun miðað við það sem vitað er um framgang þessa sjúkdóms. Hvað smásíldina fyrir norðan varðar, þ.e. eins og tveggja ára síld, þá fannst lítil sýking í eins árs síld en töluverð sýking í tveggja ára síld. Hins vegar mældist ekki mikið af tveggja ára síldinni,“ segir Þorsteinn.

Tilraunastöðin á Keldum fékk sýkta síld til rannsóknar fyrr í haust og var meðal annars kannað hvort síldin lokaði hugsanlega sjúkdóminn inni en dræpist ekki. Hér er um að ræða síld sem var með ör eftir sár sem höfðu gróið. ,,Í einhverjum tilfellum er það rétt að fiskurinn vinnur á sýkingunni en í sömu síld fannst hins vegar merki um lifandi smit. Niðurstaðan var því sú að síldin hefði unnið á sýkingunni staðbundið á sama tíma og sýkillinn væri að grassera annars staðar. Því væri ólíklegt að þessi síld réði við sýkilinn á endanum og þar af leiðandi myndi hún öll drepast,“ segir Þorsteinn.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.