mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tekjur í sjávarútvegi lækkuðu um níu prósent

7. mars 2018 kl. 11:05

Tekjurnar lækkuðu hlutfallslega mest milli áranna 2015 og 2016 hjá þeim fyrirtækjum sem höfðu mestu aflaheimildirnar.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt frá Deloitte sem unnin var að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. 

Alls drógust tekjurnar í sjávarútvegi saman um 25 milljarða króna milli áranna og EBITDA sjávarútvegsfyrirtækja lækkaði um 22 prósent. Skuldastaða greinarinnar þróaðist engu að síður með jákvæðum hætti árið 2016 því bæði lækkuðu heildarskuldir og eiginfjárhlutfall hækkaði.

Líkur eru síðan á því að afkoman hafi versnað nokkuð á árinu 2017, sem rekja má meðal annars til verðlækkunar á sjávarafurðum og hækkunar á launavísitölu. Deloitte telur að EBITDA sjávarútvegsins hafi lækkað um 20-37 prósent yfir árið 2017 og hafi þá lækkað um 42 til 59 prósent á tímabilinu 2015 til 2017.

Skýrslu Deloittes má nálgast hér. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi samkvæmt samantekt frá ráðuneytinu

Tekjur í sjávarútvegi drógust saman um 25 milljarða króna eða 9% milli áranna 2015 og 2016. Tekjur lækkuðu hlutfallslega mest hjá sjávarútvegsfyrirtækjum með mestu aflaheimildirnar. 

EBITDA sjávarútvegsfyrirtækja lækkaði um 22% milli áranna 2015 og 2016. Sjávarútvegsfyrirtæki náðu þó að einhverju marki að vega upp neikvæða tekjuþróun með lækkun kostnaðar. 

Skuldastaða greinarinnar í heild þróaðist með jákvæðum hætti árið 2016 að því leiti að heildarskuldir lækkuðu og eiginfjárhlutfall hækkaði. Greiðslugeta versnaði hins vegar heldur þar sem skuldir sem hlutfall af EBITDA lækkuðu. 

Með hliðsjón af hreyfingu helstu hagstærða og útflutningsverðmætis sjávarafurða eru allar líkur á því að afkoma versni nokkuð á rekstrarárinu 2017. Þetta má m.a. rekja til óhagstæðrar þróunar ytri hagstærða. Verðlag sjávarafurða hefur lækkað verulega í íslenskum krónum og launavísitala hækkað töluvert. Lækkun olíuverðs hefur haft nokkuð jákvæð áhrif á afkomu ársins 2016, en á árinu 2017 hefur olíuverð tekið að hækka að nýju. 

Deloitte telur að EBITDA sjávarútvegsins geti árið 2017 hafa lækkað um 20-37% frá fyrra ári og nemi á bilinu 37 til 45 milljarðar króna. Gangi það eftir mun EBITDA hafa lækkað um 42-59% frá 2015 til 2017. 

gudsteinn@fiskifrettir.is