mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tekjur taldar aukast um 25 milljarða

27. mars 2008 kl. 07:22

Ætla má að veiking íslensku krónunnar undanfarna daga muni auka tekjur sjávarútvegsins um 25 milljarða króna á ári, að því er Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, sagði í samtali við Fiskifréttir sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag. Hann sagði að veiking krónunnar væri hagstæð fyrir sjávarútveg þrátt fyrir að erlendar skuldir greinarinnar hækkuðu.

Arnar tók fram að ekki væri enn vitað hvort og að hve miklu leyti breytingar á gengi krónunnar myndu ganga til baka. Gengisvísitalan var í ársbyrjun á bilinu 120-125 stig. Fyrir nokkrum dögum nálgaðist hún 160 stig. Í byrjun vikunnar hafði vísitalan farið niður í um 150 stig en var komin upp í tæp 155 stig í gær þannig að ekki er séð fyrir endann á þessum hræringum.

Miðað við það að vísitalan verði um 150 stig, sem er auðvitað óvíst, þá hefur hún hækkað um rúm 20% frá ársbyrjun. Útfluttar sjávarafurðir námu 127 milljörðum á síðasta ári og veiking krónunnar getur því þýtt um 25 milljarða tekjuauka fyrir sjávarútveginn á ársgrundvelli.

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.