miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tekjutap vegna afráns hvala nemur tugum milljarða

3. febrúar 2009 kl. 13:15

Samkvæmt fjölstofnalíkani Hafrannsóknastofnunarinnar gæti afrakstur þorskstofnsins orðið um 20% minni en ella njóti hvalastofnar algerrar friðunar. Hvalastofnar við Íslandsstrendur eru eru nú taldir nálægt upprunalegri stærð. Sérfræðingar stofnunarinnar leggja til að hvalveiðar séu stundaðar með sjálfbærum hætti og hvalastofnum haldið í 70% af hámarksstærð.

„Ávinningurinn af sjálfbærum hvalveiðum snýst ekki eingöngu um verðmæta- og atvinnusköpun sem tengist þeim. Með skynsamlegri nýtingu hvalastofna gætum við aukið veiði á þorski og öðrum arðbærum tegundum. Þar erum við að tala um tugi milljarða króna í útflutningstekjum til viðbótar þeirri verðmæta- og atvinnusköpun sem hvalveiðarnar færa okkur,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna á vefsíðu LÍÚ.

Afrán hvala umhverfis Ísland er gífurlegt en 12 tegundir hvala halda sig reglulega við landið. Talið er að hvalirnir éti árlega um tvær milljónir tonna af fiski á Íslandsmiðum. Það er umtalsvert meira en allur íslenski fiskveiðiflotinn veiðir árlega. Tæpur helmingur þeirra sex milljóna tonna af fæðu, sem talið er að hvalir við Ísland éti, er sviflæg krabbadýr. Um ein milljón tonna er smokkfiskur og um tvær milljónir tonna fiskur.

Hrefnan ein étur um tvær milljónir tonna og er um helmingur þess fiskur. Það er mat sérfræðinga að þorskur geti numið a.m.k. 3% af fæðu hrefnunnar eða um 60.000 tonnum. Bráðabirgðaniðurstöður rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar á innihaldi hrefnumaga á árunum 2003-2007 sýna að bolfiskur var ráðandi í 28% tilvika. Niðurstöðurnar voru kynntar í júni á síðasta ári.

Þorskur var algengastur „greinanlegra“ bolfiska og var ríkjandi í 8% maga. Aðrar tegundir voru ýsa, lýsa, ufsi, spærlingur og kolmunni. Samkvæmt þessum sömu niðurstöðum voru loðna og síld ríkjandi í 10% maganna hvor tegund og tvær ljósátutegundir voru samanlagt ríkjandi í 10% maganna.