miðvikudagur, 18. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þá kunnu menn að segja sögur

12. ágúst 2017 kl. 10:00

Guðjón Ingi Eiríksson bókaútgefandi.

Gamansögur af íslenskum sjómönnum komnar út á bók

Guðjón Ingi Eiríksson bókaútgefandi sendi fyrir stuttu frá sér bók með gamansögum af íslenskum sjómönnum. Sjálfur er hann kominn af sjómönnum í báðar ættir.

„Bókin er alveg á sjómannamáli, það er ekkert verið að draga neitt úr því. Ef maður færi að fara með þetta yfir á eitthvað Biblíumál þá þekkir enginn þessa kalla,“ segir Guðjón Ingi. „Sjómennirnir þessir gömlu þeir kunnu svo vel að segja frá. Áður en menn fóru að liggja yfir tölvunum þá voru menn að prakkarast og segja sögur, og þær hafa lifað.“

Viðmælendurnir eru úr ýmsum áttum og sögurnar koma af öllum landshlutum. Meðal sögumanna á nefna Jón Berg Halldórsson, Magna Kristjánsson, Ingvar Viktorsson og Ragnar Inga Aðalsteinsson. Þá eru þarna löngu klassískar sögur af þekktum persónum eins og Lása kokki, Binna í Gröf og Eiríki Kristóferssyni.

Sumar þeirra hafa hvergi birst áður á prenti. „Ömmusystir mín þekkti til dæmis Lása kokk og sagði sögur af honum, en þrjár þeirra hafa aldrei komið áður á prenti.“

Margar af sögunum gerast um borð í bátum og skipum, sumar á veiðum hér við land og sumar á siglingum til annarra landa.

„Og þarna koma allar stéttir til sjós við sögu, bæði kokkar og vélstjórar, hásetar og skipstjórar. Nema skipshundarnir. Það er engin saga af skipshundi í bókinni,“ segir Guðjón Ingi. „Einn slíkur var mikill vinur minn, en svo varð hann gamall og dó.“

Röðin komin að sjómönnum
Guðjón Ingi hefur tekið saman margar gamansagnabækur af ýmsum starfsstéttum eins og prestum, læknum, alþingismönnum og kennurum. „Nú var einfaldlega röðin komin að sjómönnum,“ segir hann. „Sjálfur er ég sjómannssonur, ættaður úr sjávarplássi og kominn af sjómönnum í báðar ættir, þannig að ég ólst upp við þessar sögur.“

Sjálfur segir Guðjón Ingi vera alger landkrabbi. Hann hafi mikið unnið í fiski þegar hann var ungur en aldrei farið í veiðitúr. „Lengsti túrinn sem ég hef farið er með Herjólfi út í Vestmannaeyjar,“ segir hann.

„En ég hef alla tíð haft áhuga á sjómennsku. Faðir minn fórst í sjóslysi á sínum tíma og hann kunni svo sannarlega að segja sögur heima.“

Faðir hans, Eiríkur Sævar Bjarnason vélstjóri, fórst ásamt fimm öðrum sjómönnum í mynni Reyðarfjarðar með vélbátnum Hrönn SH 149 frá Eskifirði. Þetta var árið 1979, þegar Guðjón Ingi var enn á unglingsárum.

„Ég var svo ungur þá að ég var ekki farinn að hugsa út í að safna þessum sögum saman, þannig að það fór með honum.“

Mikill fengur
Hann segist svo sannarlega ekki hafa komið að tómum kofunum þegar hann fór að falast eftir sögum hjá fólki víða um land.

„Það var mikill fengur að komast í karla sem kunnu að segja almennilega frá. Þessir gömlu sjómenn þurftu menn að hafa ofan af fyrir sjálfum sér á þessum árum. Ef maður bjó ekki til skemmtiatriðin sjálfur þá hafði maður ekkert. Margir voru þeir líka svo miklir listamenn sem voru á sjónum, fínir leikarar og söngvarar, og þeir gátu svo sannarlega skrifað, voru að punkta hjá sér ýmislegt þótt aldrei hafi það komið á prenti kannski.“

Bókin heitir HÍF OPP! Gamansögur af íslenskum sjómönnum. Útgefandi er bókaútgáfan Hólar.

gudsteinn@fiskifrettir.is