þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

The Economist: Framseljanlegar aflaheimildir lausnin fyrir ESB

6. janúar 2009 kl. 13:50

Framseljanlegar aflaheimildir eru lausnin á vanda sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Fiskveiðistjórnun á Íslandi er til eftirbreytni á sama tíma og sjávarútvegsstefna ESB með öllum sínum ríkisstyrkjum hefur beðið algert skipbrot.

Sú stefna er „ein meginástæða þess að Noregur og Ísland, sem bæði láta sér annt um hafið, hafa hvorugt gengið í Evrópusambandið.“

Þetta er megininntak ítarlegrar umfjöllunar í tímaritinu The Economist nú um áramótin.

Í greininni segir m.a.:

„Önnur lönd gætu margt af Íslandi lært. Grundvallaratriði stefnunnar [fiskveiðistjórnunarkerfisins] er að hvetja sjómenn til þess að vernda fiskistofnana þannig að þeir geti vænst arðbærra veiða til lengri tíma litið. Kerfið er gagnsætt, opið, fremur einfalt og vel er fylgst með því. Fyrir vikið nýtur það virðingar sjómanna. Og það sem mestu er um vert; kerfið byggir á mati vísindamanna á stofnstærðum, ekki á útreikningum stjórnmálamanna á hvernig hægt sé að auka kjörfylgi.“

Ríkur gaumur er í greininni gefinn að mikilvægi eignarréttarskipulags í sjávarútvegi og við ábyrga stjórnun veiða og verndun fiskstofna.

„Næstum undantekningalaust er eignarréttarákvæði lykilatriði í þessu samhengi,“ segir í greininni.

Þar er einnig vitnað til jákvæðrar reynslu af útgerðum á vesturströnd Bandaríkjanna, þar sem byggt er á eignarhlutdeildarkerfi og einnig bent á að eignarréttarákvæði hafi reynst öflugt vopn í verndun kóralrifja.

Til samanburðar er vísað til sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. The Economist kallar hana „harmleiks hafsins“ þar sem öllum með aðgang að sameiginlegum auðlindum sé það kappsmál að ofnýta þær áður en einhver annar verði fyrri til.

The Economist lítur íslenska kvótakerfið öðrum augum en þeir sem gagnrýna það hvað harðast hérlendis.

Í úttektinni segir: „Lausnin fyrir Evrópu, og önnur svæði, felst í stefnu sem grundvallast á einkennum þeirrar íslensku: framseljanlegum aflaheimildum ... ströngu eftirliti með reglum og opnum aðgangi að öllum viðeigandi gögnum um landaðan afla, hörðum viðurlögum við brotum; sektum, sviptingu veiðileyfa og upptöku veiðarfæra ... eins og á Íslandi.“

Þýðing á greininni í heild er birt á vef LÍÚ, HÉR. (Word skjal)