miðvikudagur, 18. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þjónar sem fljótandi verksmiðja

4. ágúst 2017 kl. 12:00

Eyborg EA við komuna til heimahafnar. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Eyborg EA 59 er nýkomin úr klössun og fer á grálúðufrystingu við Grænland

Frystitogarinn Eyborg EA 59 frá Hrísey kom í vikunni heim úr klössun í Póllandi og Danmörku. Skipsins bíða Grænlandsmið þar sem fryst verður grálúða sem veidd er af þarlendum smábátum.

Birgir Sigurjónsson, útgerðarmaður Eyborgar og eigandi, segir ekkert stórvægilegt hafi þurft að gera, heldur aðeins nauðsynlegt viðhald.

„Það var verið að sandblása og mála, taka upp gír og skrúfu og annað sem tími var kominn á,“ segir Birgir en allt í allt var Eyborgin í tvö mánuði ytra.

Haldið til Grænlands
Spurður um fyrirliggjandi verkefni segir Birgir að innan tíðar verði haldið til Grænlands. Þar er útgerðin þátttakandi í verkefni sem lítur að því að taka á móti afla grænlenskra smábáta og frysta hann um  borð.

„Við erum í raun fljótandi verksmiðja og höldum til á miðunum þar til skipið er fullt af frystum afurðum,“ segir Birgir en fyrir slíkri útgerð íslenskra skipa eru nokkur fordæmi, en færeysk skip hafa einnig haft þennan háttinn á.

Eyborgin hefur verið gerð út á úthafsrækju, en þær veiðar liggja niðri og svo verður um ófyrirséðan tíma. Ástæðan kemur engum á óvart – engar forsendur eru fyrir Eyborgina að veiða rækju vegna gengis krónunnar.

Spurður um hvað tekur við eftir að grálúðufrystingu líkur við Grænland segir Birgir það einfaldlega ekki liggja fyrir.

Það er ekkert nýtt að skipinu sé beitt til óhefðbundinna verkefna. Eyborg EA hefur í gegnum árin verið í verkefnum erlendis til dæmis við veiðar á rækju á Flæmingjagrunni og síðan við veiðar í Miðjarðarhafi og önnur verkefni, og var um tíma meðal annars þjónustuskip við túnfiskveiðar. Þá má geta þess að árið 2008 nýtti útgerð Eyborgar frá Hrísey 50 tonna bláuggatúnfiskskvóta Ísland í samvinnu við fyrirtæki í Líbýu og var fiskinum ráðstafað í áframeldi á Möltu, eins og Fiskifréttir sögðu frá á sínum tíma.