þriðjudagur, 25. september 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskinum verði gert hærra undir höfði

Svavar Hávarðsson
10. október 2017 kl. 07:00

Þorskurinn hefur fært Íslendingum tæplega 1.400 milljarða króna útflutningstekjur frá aldamótum. Halldór Höskuldsson, skipverji á Grímsey ST, heldur hér á einum vænum.

Milljónir ferðamanna heimsækja Ísland en lítið er gert til að kynna þeim eina mikilvægustu útflutningsvöru okkar

Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, telur fulla ástæðu til þess að stjórnvöld skoði hvort hægt sé að gera þætti þorsksins í uppbyggingu íslensks samfélags hærra undir höfði. Hugsanlegt sé að efna til samkeppni á meðal listamanna og hönnuða um verk eða seríu af verkum sem koma mætti upp víða um land sem vísaði til þessa mikilvæga þáttar í uppbyggingarsögu Íslands. Markmiðið væri bæði að fræða Íslendinga um þátt þess gula við uppbyggingu landsins, og kynna fyrir útlendingum hversu stórt hlutverk vinnsla á þessum helsta nytjafiski okkar hefur leikið í mótun þess samfélags sem við nú þekkjum.

Sjávarklasinn, sem hefur um fimm ára skeið eflt sprotastarfsemi í haftengdum greinum og samstarf ólíkra fyrirtækja, hefur náð markverðum árangri á stuttum tíma. Áhugi innanlands sem utan á þeim árangri sem náðst hefur í íslenskum sjávarútvegi fer ekki framhjá þeim sem gerst þekkja. En mitt í þessari velgengni eru óteljandi tækifæri sem hafa ekki verið nýtt til þessa, og eitt þeirra er að hvetja til samstarfs hins opinbera og fyrirtækja sem tengjast sjávarklasanum öllum í því verkefni að virkja sögu sjávarútvegsins, til dæmis í haftengdri ferðaþjónustu – kynna fyrir gestum okkar sögu íslenska þorsksins, sjálfbærar veiðar og betri nýtingu Íslendinga á þorskafurðum en þekkist annars staðar.

Fátt verðmætara
Sögu þorsksins og þátt hans í uppbyggingu landsins mætti setja fram með meira áberandi hætti um land allt. Við viljum leggja til að stjórnvöld hugi að möguleikum í því sambandi, segir Þór sem hefur kynnt þessa hugmynd sína fyrir stjórnvöldum. Henni var vel tekið og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttur, fráfarandi sjávarútvegsráðherra, sá ástæðu til að nefna hana sérstaklega í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fyrir skemmstu.

Rök Þórs fyrir verkefninu eru athyglisverð. Hann bendir á að það er engum blöðum um það að fletta að íslenski þorskurinn hefur um langt skeið verið uppistaðan í íslenskum sjávarútvegi. Efnahagsleg áhrif vegna nýtingar þorsksins hérlendis eru gríðarleg, þó það sé mönnum ekki oft ofarlega í huga.

Það er í raun með ólíkindum hve þorskurinn hefur skapað Íslendingum mikil verðmæti í aldanna rás, segir Þór. Þó ekki sé horft lengra aftur en til síðustu aldamóta þá blasir við að síðan þá hefur þorskurinn fært Íslendingum tæplega 1.400 milljarða króna útflutningstekjur, en síðustu tvo áratugi hafa íslensk skip fært að meðaltali um 200.000 tonn af þorski að landi á hverju ári. 

100%
Þór segir að þegar vel er að gáð hafi fáar náttúruauðlindir skapað jafnmikil verðmæti og jafnmikil margföldunaráhrif í íslensku efnahagslífi. Veiðar á þorski lögðu grunninn að öflugum fiskiðnaði á Íslandi, vaxandi fisktækniiðnaði sem nú er einn sá fremsti í heiminum og á allra síðustu árum hefur þorskurinn svo rennt stoðum undir nokkur ný og framsækin fyrirtæki í heilsu- og lyfjaiðnaði.

„Það sem er einstakt við veiðar og vinnslu Íslendinga er að við nýtum stærstan hluta aflans í afurðir, ólíkt flestum nágrannaþjóðum okkar,“ segir Þór en íslensk fyrirtæki nýta að jafnaði 80% þorsksins í ýmsar afurðir - og sum hver nálægt 100% - á meðan tæpur helmingur hvers þorsks fer aftur í hafið eða í sorpeyðingu í nágrannalöndum okkar við Norður-Atlantshaf. Þar hefur nýtingin aðeins verið um 50-55% á undanförnum árum.

Rannsóknir Sjávarklasans benda til að um 450 þúsund tonn af þorskafurðum fari til spillis í Norður-Atlantshafi á hverju ári. Betri meðferð þessa gríðarmikla magns af náttúrulegum próteinum, fitu og kalki ætti að mati Þórs, að vera kappsmál allra þjóða við Norður-Atlantshaf enda felist í þessu mikið tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar - sem er hornsteinninn í starfi Sjávarklasans – að engu sé hent; allt sé nýtt sem nýtanlegt er.

Listamenn og hönnuðir
Hitt er að ef við þessa stærð er bætt útflutningi á vélum, hugbúnaði og þekkingu til veiða og vinnslu þorsks og ýmsum öðrum þorskafurðum, t.d. niðursoðinni lifur og svo snyrtivörum, stoðefnum og fleiru sem unnið er úr afurðum þorsksins, eru tekjur landsins af þorskinum langtum meiri en 100 milljarðar króna á ári.

Þór bendir á að hús Sjávarklasans hefur tekið á móti vel á annað þúsund útlendingum sem hafa hrifist af sögu íslenska þorsksins og þeirri gæðastefnu sem sjávarútvegurinn hefur beitt í veiðum og vinnslu hans. Ljóst sé að þegar milljónir ferðamanna heimsækja Ísland séu Íslendingar ekki að nýta þessa gesti til að efla ímynd þorsksins – einnar af okkar mikilvægustu útflutningsvörum. Það megi hins vegar gera með því að segja söguna um náið hann tengist menningu okkar og lífsgæðum, segir Þór.

„Hugsanlegt er að efna til samkeppni á meðal listamanna og hönnuða um verk eða seríu af verkum sem koma mætti upp víða um land sem vísaði í sögu þorsksins. Markmiðið með slíku verkefni væri bæði að fræða Íslendinga um þátt þorsksins í uppbyggingu landsins og kynna fyrir útlendingum sögu þorsksins og þau gæði sem í honum felast. Hvetja mætti til samstarfs hins opinbera og fyrirtækja sem tengjast sjávarklasanum öllum í þessu verkefni,“ segir Þór.