miðvikudagur, 18. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þreifa fyrir sér erlendis

4. ágúst 2017 kl. 09:00

Hólmfríður Sveinsdóttir hefur verið í fararbroddi framleiðslunnar á Sauðárkróki. MYND/ICEPROTEIN

Níu vísindamenn starfa á Sauðárkróki við að vinna prótín úr sjávarafurðum

Íslenska sprotafyrirtækið IceProtein á Sauðárkróki hefur farið nýjar leiðir við nýtingu sjávarafurða með því að vinna úr þeim fæðubótarefni sem hlotið hafa góðar viðtökur.

Fyrirtækið þjónustar einnig umfangsmikla matvælaframleiðslu í Skagafirði og nágrannasveitarfélögunum og síðast en ekki síst hefur það tekið þátt í að þróað nýja kælitækni sem hefur skilað góðum árangri.

„Þetta hefur gengið vel,“ segir Hólmfríður Sveinsdóttir, frumkvöðull og stjórnandi fyrirtækisins, um Fiskprótín vörurnar, en tekur fram að þetta ævintýri sé rétt að hefjast og kynningarstarf eigi vonandi eftir að skila enn meiri árangri.

„Þetta er glænýtt, fór bara á markað í fyrra og það var svo sem enginn að bíða eftir að fiskprótín kæmi á markað.“ Meðal annars eru þau að þreifa fyrir sér erlendis enda innanlandsmarkaðurinn frekar lítill fyrir framleiðslu af þessu tagi.

Fiskprótín vörulínan er framleidd undir merkjum systurfyrirtækis IceProtein, sem heitir Protis. Nú þegar hafa komið á markaðinn þrjár tegundir fæðubótarefna með fiskprótíni frá fyrirtækinu.

„Það er fiskprótín í þeim öllum en svo bætum við öðrum viðurkenndum náttúrulegum efnum í fiskprótínið til að koma til móts við ákveðna markhópa,“ segir Hólmfríður. „Svo erum við með fjórar nýjar vörur í þróun, tvær sem koma á markað á þessu ári og líklega tvær á næsta ári til viðbótar.“

Hólmfríður hlaut á þessu ári hvatningarverðlaun Félags kvenna í atvinnurekstri og á síðasta ári hlaut hún hvatningarverðlaun sjávarútvegsins.

Hjá fyrirtækjunum tveimur starfa samtals níu manns, þrír hjá Protis og sex hjá IceProtein. Flestir starfsmennirnir eru konur og allir eru þeir háskólamenntaðir í líftæknifræði og skyldum greinum.

„Það var svo sem aldrei stefnan að ráða aðallega konur, en konur hafa bara verið fleiri í þessum greinum,“ segir Hólmfríður, sem tók við Iceprotein árið 2013 og stofnaði svo Protis árið 2015.

„Ég er alls ekki ein í þessu, ég hef verið alveg rosalega heppin með starfsfólk og svo höfum við haft ómetanlegan stuðning af samstarfinu við FISK Seafood hér á Sauðárkróki, sem er eigandi af bæði IceProtein og Protis.“

Fyrir utan fæðubótarvörurnar hefur IceProtein unnið að þjónusturannsóknum fyrir matvælafyrirtæki í Skagafirði og víðar, bæði sjávarútveginn og landbúnaðinn kjöt- og mjólkurframleiðslu og fleira.

Þá tók IceProtein fyrir nokkrum árum þátt í tímamótarannsóknum með Skaganum/3X, Frost Kælitækni og Matís sem urðu til þess að byltingarkennd kælitækni er að ryðja sér rúms í fiskiskipum hér á landi. Sú tækni kemur í stað kælingar með ís sem um aldaraðir hefur verið mikilvægasta aðferðin til að halda fiski ferskum ásamt frystingu.

„Við gerðum þetta með Málmeyjuna þegar henni var breytt úr frystitogara í kælitogara. Þetta var í fyrsta skipið í heiminum þar sem bolfiskur er kældur um borð án þess að nota ís eða krapa. Málmey varð aflahæsta skipið i fyrra og svo eru nokkur ný íslensk skip sem verða með svona kælibúnað um borð “ segir Hólmfríður.

gudsteinn@frettabladid.is