miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Á þriðja milljón hrognkelsi til lúsaáts framleidd á Íslandi

Guðjón Guðmundsson
23. desember 2018 kl. 06:00

Hrognkelsi alin upp hjá Tilraunastöðinni og Stofnfiski eru farin að gegna veigamiklu hlutverk í vörnum gegn laxalús. MYND/GUGU

Eldi á hrognkelsaseiðum hófst sem rannsóknaverkefni á vegum Tilraunaeldisstöðvar Hafrannsóknastofnunar á Stað árið 2014. Agnar Steinarsson, líffræðingur hjá tilraunaeldisstöðinni, segir að framleidd séu um 200.000 hrognkelsi á ári á Stað.

Eldi á hrognkelsaseiðum hófst sem rannsóknaverkefni á vegum Tilraunaeldisstöðvar Hafrannsóknastofnunar á Stað árið 2014. Agnar Steinarsson, líffræðingur hjá tilraunaeldisstöðinni, segir að framleidd séu um 200.000 hrognkelsi á ári á Stað. Það er þó einungis brot af heildarframleiðslunni því hjá Stofnfiski eru framleidd ríflega tvær milljónir hrognkelsaseiða á ári. Tilraunastöðin hefur haft góðar sértekjur af eldinu sem léttir undir með öðrum rannsóknum sem þar fara fram.

Brautryðjandi

Tilraunaeldisstöðin er brautryðjandi í eldi á hrognkelsum hér á landi. Verkefnið hófst á árinu 2013 þegar Tilraunastöðinni tókst að klekja út hrognum úr villtri grásleppu og í framhaldinu ala upp fyrstu seiðin. Þekkingunni var miðlað til Stofnfisks sem nú sér Tilraunaeldisstöðinni fyrir hrognum.

Mikil eftirspurn er eftir hrognkelsum í Færeyjum þar sem þau nýtast sérlega vel til þess að éta lýs af eldislöxum í kvíum.  Hafrannsóknastofnun og Stofnfiskur eiga í mjög góðu samstarfi á sviði hrognkelsaeldis og færeysku laxeldisfyrirtækin kaupa hrognkelsi af þeim báðum. Stofnfiskur selur auk þess lirfur og hrogn til Skotlands.

Lífrænar varnir jákvæðar

Íslenskar laxeldisstöðvar eru einnig farnar að kaupa hrognkelsi til þessara sömu nota. Arnarlax á Bíldudal er farið að nýta sér hrognkelsin til aflúsunar. Þangað hefur Stofnfiskur selt um 100.000 hrognkelsi og 50.000 til Arctic Fish. Agnar segir að komið hafi í ljós að talsvert er um lús á Vestfjörðum. Ánægja hefur verið með virknina og áætlar Arnarlax að halda þessum viðskiptum áfram. Arnarlax mun einnig kaupa talsvert magn af hrognkelsum af Hafrannsóknastofnun í ár.

„Hrognkelsið hefur verið að sanna sig sem besta vörnin gegn þessu stóra vandamáli sem laxalúsin er. Lífrænar varnir af þessu tagi eru jákvæðar fyrir náttúruna og auk þess hagkvæmari en aðrar aðferðir eins og til dæmis lyf. Lúsin verður auk þess ónæm fyrir lyfjum og eldisfyrirtækin eru því í auknum mæli að nýta sér hrognkelsi. Í Noregi eru jafnt notuð hrognkelsi og aðrar hreinsifiskategundir, svokallaðir varafiskar sem Norðmenn veiða villta og sleppa í kvíarnar. En í Færeyjum eru einungis notuð hrognkelsi.“

Umfang framleiðslunnar hér á landi hefur aukist mikið með aðkomu Stofnfisks. Þannig jókst útflutningur á hrognkelsum um rúm 50% milli áranna 2014 og 2015 og á síðasta ári voru flutt út 2.109.000 seiði, 20-40 gramma, með 80 gámaferðum og 23 flugsendingum. Þá sendi Stofnfiskur auk þess 4 milljónir hrognkelsalirfa til Skotlands og 4 lítra af hrognkelsahrognum, um 400.000 stk., til Írlands.