föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tilkomumikil sjón

10. júlí 2009 kl. 09:26

Það var tilkomumikil sjón sem blasti við í Reykjavíkurhöfn í gærkvöldi er dráttarbátur og prammi, með tíu 22 metra háa mjöltanka og annan búnað úr fiskmjölsverksmiðju HB Granda í Reykjavík, létu úr höfn.

Ferðinni er heitið til Vopnafjarðar en þar hefur tönkunum verið valinn framtíðarstaður, að því er segir á vef HB Granda.

Áður hefur verið fjallað um fyrirhugaða flutninga á mjöltönkunum og búnaði úr fiskmjölsverksmiðjunni í Reykjavík til Vopnafjarðar hér á heimasíðunni og eins og fram hefur komið er umfang flutningsins umtalsvert. Hver tankur er jafn hár og sjö hæða hús og í öryggisskyni var ákveðið að rafsjóða þá fasta við þilfarið á prammanum. Þegar allt er talið vegur farmurinn um 600 tonn. Stefnt er að því að siglingin til Vopnafjarðar taki um tvo sólarhringa og því ættu dráttarbáturinn og pramminn að vera komnir á leiðarenda síðdegis á laugardag. Stefnt er að því að uppskipun hefjist á sunnudag.

Það er Héðinn hf. sem hefur borið veg og vanda að undirbúningi þessa verkefnis, í samvinnu við starfsmenn HB Granda, og norskir undirverktakar þess fyrirtækis sjá um sjálfan flutninginn. Héðinn hf. mun einnig sjá um uppsetningu á mjöltönkunum og öðrum búnaði á Vopnafirði.