miðvikudagur, 20. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tilkynningarskyldan og VHF sendar óvirkir

17. maí 2017 kl. 12:16

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Tveggja tíma rafmagnsbilun sló út VHS senda og sjálfvirku tilkynningarskylduna fyrir austan.

Sjómenn sem voru við veiðar við austanvert landið í morgun gátu ekki látið vita af sér vegna bilana eftir að rafmagn fór af í nærri tvær klukkustundir. VHF sendar voru úti og sömuleiðis sjálfvirk tilkynningaskylda sjómanna. Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við RÚV alvarlegt þegar þetta kemur upp. 

Nú standa strandveiðar sem hæst og því fjölmargir smábátar á sjó en sjómenn gátu ekki látið vita af ferðum sínum í morgun vegna þessa. Um fjögur hundruð bátar voru á sjó og því má gera ráð fyrir að nokkrir tugir hafa verið að veiðum við austanvert landið. Rafmagn fór af um sjöleytið en var komið á alla helstu þéttbýlisstaði fyrir klukkan níu. 

Ásgrímur segir bagalegt að það sé ekki hægt að treysta á þetta kerfi. „Þetta gerir náttúrulega það að verkum að bátar koma ekki frá sér neyðarkalli í gegnum metra-bylgju en kannski aðeins öðruvísi með stærri skip og annað þau hafa fleiri möguleika á fjarskiptum heldur en metra-bylgjan. En þegar við reyndum svo að hringja til þess að hafa samband við þá og fá að vita hvort það væri ekki allt í lagi þá virtist gsm-kerfið líka liggja niðri.“ 

Ásgrímur segir að undir venjulegum kringumstæðum taki varaafl við en þegar heill fjórðungur verði rafmagnslaus klárist það fljótt. Hann segir að þetta eigi aðeins við smábáta því stærri skip hafi fleiri möguleika til að láta vita. „Metrabylgjan, sem er á rás 16 er neyðar- og uppkallsrás skipa og báta og í þessu tilviki þá hefðu allavega smærri bátar ekki geta látið vita af sér eða gert vart við sig í gegnum það kerfi, og það er út af fyrir sig talsvert alvarlegt,“ segir Ásgrímur í samtali við RÚV