miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tilraunaveiðar á trjónukrabba lofa góðu

17. desember 2009 kl. 15:01

Tilraunaveiðar á trjónukrabba fóru fram í Hvammsfirði og innanverðum Breiðafirði í sumar og haust og niðurstöður lofa góðu, að því er fram kemur í Fiskifréttum er fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Veiðarnar voru stundaðar á vegum Birgisáss ehf. í Búðardal og Breka Bjarnasonar á Barðaströnd. Þrír bátar stunduðu veiðarnar í sumar, Hugrún DA og Ella ÍS sem Birgisás gerir út og Ísöld BA sem Ísöld útgerð ehf. gerir út. Sérstakar krabbagildrur, sem eru um metri í þvermál og um 70 sentímetrar á dýpt, voru notaðar við veiðarnar.

,,Þetta fór brösuglega af stað eins og kannski var við að búast meðan við vorum að þreifa okkur áfram og leysa ýmis vandamál sem upp komu. Síðan náðum við tökum á veiðunum og þær gengu prýðilega í restina,“ segir Baldur Þórir Gíslason í samtali við Fiskifréttir. Í upphafi var algengt að aðeins 10 krabbar veiddust í hverja gildru. Undir lokin voru þeir hins vegar farnir að fá um 100 krabba í gildru.

,,Við höfum sótt um leyfi til að halda tilraunaveiðunum áfram, meðal annars til að kanna hvort unnt sé að stunda þessar veiðar að vetri til. Ef það gengur eftir förum við væntanlega af stað aftur í febrúar. Samhliða verður unnið í markaðsmálum og ef hagstæðir sölusamningar nást munum við setja meiri krafti í veiðarnar og hefja vinnslu á krabbanum í Búðardal,“ segir Baldur.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.