miðvikudagur, 18. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tíu milljónum tonna hent í hafið

12. ágúst 2017 kl. 14:00

Fiskafli kominn á land og bíður vigtunar í litlu þorpi í Kenía. MYND/EPA

Brottkast afla hefur minnkað um helming síðan 1989, þegar það var í hámarki

Brottkast afla er talið nema um tíu milljónum tonna á ári á heimsvísu.

Tíu milljón tonn er um tíu prósent heildaraflans sem veiðist á hverju ári en hefur reyndar minnkað um nærri helming síðustu áratugina.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem birt er í júlíhefti tímaritsins Fish and Fisheries. Frá henni er sagt á fréttasíðunni SeafoodSource.com, en það var Dirk Zeller, prófessor við háskólann í Perth í Ástralíu, sem stjórnaði rannsókninni.

Þar kemur einnig fram að brottkast hafi minnkað töluvert frá árinu 1989, þegar það var í hámarki. Áætlað er að um 19 milljón tonnum af fiski hafi verið kastað aftur í sjóinn þetta ár, og var það ríflega tuttugu prósent af heildaraflanum þá.

Brottkast hafði þá aukist verulega í nokkuð réttu hlutfalli við aukingu heildaraflans á heimsvísu síðan 1950, en það ár er talið að brottkast hafi numið um fimm milljónum tonna. Heildaraflinn var samt töluvert minni þá, þannig að brottkastið nam um fjórðungi aflans árið 1950.

gudsteinn@fiskifrettir.is