mánudagur, 25. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tvö stærstu félög með tæp 18% kvótans

15. mars 2017 kl. 08:46

HB Grandi

Litlar breytingar á röð efstu útgerða samkvæmt lista Fiskistofu

Fiskistofa hefur birt árlegan lista yfir aflahlutdeildir stærstu útgerða landsins. Eins og undanfarin ár eru HB Grandi og Samherji í tveimur efstu sætunum. HB Grandi er með um 11,3% af hlutdeildunum en var í september með 11,0%. Samherji er með 6,5%. Samanlagt ráða þessi tvö stærstu útgerðarfyrirtæki landsins því yfir 17,5% af hlutdeildunum í kvótakerfinu. Í 3. til  5. sæti eru Síldarvinnslan í Neskaupstað, Vinnslustöðin Vestmannaeyjum og Þorbjörn í Grindavík.

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20% og í karfa ekki yfir 35%.

Heildarkrókaaflahlutdeild einstakra eða tengdra aðila má ekki fara yfir 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá má krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu.