mánudagur, 18. febrúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uggandi yfir ástandinu

Guðjón Guðmundsson
6. júlí 2018 kl. 07:00

Humarvertíðin nú er sú lakasta í manna minnum. MYND/GUGU

Ein lakasta humarvertíð í manna minnum

„Menn eru uggandi yfir ástandinu og þetta stefnir í eina lélegustu humarvertíð í manna minnum,“ segir Margeir Guðmundsson, skipstjóri á Skinney SF. Níu bátar eru við humarveiðar og afraksturinn verið rýr.

Skinney var að koma inn til löndunar í Grindavík eftir veiðar í Jökuldýpinu. Margeir sagði að í hreinskilni sagt væri afar rólegt yfir veiðunum. Á þessari vertíð var Skinney búin að ná um 80 tonnum af heilum humri. Hann segir að í samanburði við fyrri vertíðir sé veiðin döpur.

„Við höfum verið í Hornafjarðardýpi, Lónsdýpi og Breiðamerkurdýpi á austursvæðinu og það fór í raun aldrei almennilega af stað veiðin. Við færðum okkur svo upp úr miðjum maí að vestursvæðinu. Það hefur verið tilhneigingin í þessum veiðum að halda sig á austursvæðinu fram að sjómannadegi og svo á vestursvæðinu eftir sjómannadag.“

Litlar líkur að kvótinn náist

Margeir er á sinni tíundu humarvertíð og kveðst ekki muna eftir lakari aflabrögðum. Nýliðun sé lítil og það sé eiginlega stóra málið. Menn viti ekki alveg hvað sé í gangi.

„Við sáum reyndar ungviði í vor í Breiðamerkurdýpinu en svo klipptist skyndilega á það. Það mætti velta fyrir sér hvort afráni sé að kenna. Við höfum verið að veiða á svæðum þar sem makríll hefur haldið sig undanfarin ár og hann er ágengur. Við höfum nánast enga nýliðun séð síðustu 7 til 8 ár sem er sá tími sem makríllinn fór að láta á sér kræla að einhverju ráði. Svo hefur líka verið aukin þorskgegnd á miðunum undanfarin ár og við höfum séð töluvert af humri í þorskum,“ segir Margeir.

Margeir telur litlar líkur til þess að útgefinn humarkvóti og viðbætur frá fyrri vertíð náist á þessu fiskveiðiári. Stefnan er sett aftur á Jökuldýpið.

„Sumarið virðist ekki ætla að koma þannig að við erum líka að leita eftir þokkalegu veðri. Það hefur verið rysjótt tíð og það dregur verulega úr veiði um leið og það kemur kaldi.“

Krítískt ástand

Jónas Páll Jónsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir engar einhlítar skýringar á nýliðunarbresti humars. Ástandið hafi ágerst síðustu árin. Hann telur ólíklegt að rekja megi nýliðunarbrestinn til afráns makríls. Humarlirfur séu lítill hluti dýrasvifsins í hafinu og áta sé uppistaðan í fæðu  makríls, auk þess að nýliðunarbresturinn hefst áður en makríllinn fer að ganga hingað í miklu magni, en vissulega er hann fyrirferðarmikill í vistkerfinu.

Jónas Páll segir kvenhumarinn mun minni en karlhumar og hlutfall hans í veiðunum sé að jafnaði um 10%. Þó geti komið ástand þegar hlutfall kvenhumars er mun hærra. Síðastliðið vor hafi komið prufur þar sem 70% aflans var kvenhumar og það er uppistaðan í smáhumrinum sem veiddist. Hjá öðrum þjóðum er hlutfallið allt annað þar sem að staðaldri um 40% aflans er kvenhumar. Almennt er humarinn þar einnig mun smærri, líka karlhumarinn, og á þetta við þar sem humarveiðar eru stundaðar, eins og við Bretlandseyjar og víðar. Ástand eins og hér við land með tilheyrandi nýliðunarbresti er ekki að sjá annars staðar. Miðað við gögn allt frá 1963 þegar mælingar hófust hefur viðlíka nýliðunarbrestur ekki orðið í humarstofninum hér við land.

Humarvertíðin nú er sú lakasta í manna minnum. MYND/GUGU