fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umbúðir fyrir 10 þúsund tonna framleiðslu

18. maí 2017 kl. 13:55

Við undirritun samningsins. F.v.: Óskar G. Karlsson (Icelandic), Freyr Sigurðsson (Icelandic), Guðjón Stefánsson (Oddi) og Bjarni Guðjónsson (Oddi)

Oddi gerir stóran samning við Icelandic Ibérica á Spáni.

Oddi hefur undirritað samstarfssamning um framleiðslu umbúða fyrir afurðir framleiddar á Íslandi til útflutnings fyrir Icelandic Freezing Plants Ibérica S.A., en umbúðir framleiddar hjá Odda koma nú í stað innfluttra umbúða áður. Samningurinn fellur vel að annarri framleiðslu Odda sem framleiðir m.a. öskjur, kassa og plastumbúðir fyrir fjölbreyttar afurðir sjávarútvegsfyrirtækja og annan matvælaiðnað á Íslandi og erlendis.

Umfang samningsins er mikið þar sem hann felur í sér umbúðir fyrir rúmlega 10 þúsund tonn afurða sem fluttar eru út út til Spánar frá Íslandi árlega. 

Að baki Icelandic Freezing Plants Ibérica S.A. standa öflug íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa selt vörur til veitingastaða í Suður-Evrópu um árabil undir vörumerkinu „Icelandic Seafood“ og félagið er einn helsti sölu- og dreifingaraðili á léttsöltuðum þorski frá Íslandi ásamt ýmsu öðru sjávarfangi. 

Í frétt frá Odda segir að fyrirtækið hafi lengi lagt mikla áherslu á umhverfismál og sérstaklega sé fylgst með kolefnisspori umbúða sem framleiddar séu hjá fyrirtækinu en áhersla á loftslagsmál hafi stóraukist hjá kaupendum sjávarútvegsafurða og annarra matvæla síðustu misseri.