miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umfangsmikilli loðnuleit endanlega lokið

16. mars 2009 kl. 17:33

Umfangsmikilli loðnuleit hafrannsóknaskipa og fiskiskipa er nú lokið án þess að loðnukvóti væri gefinn út. Ekki náðist að mæla þau 400 þúsund tonn sem miðað við sem grundvöll til útgáfu aflamarks. Þetta er í fyrsta sinn frá veiðitímabilinu 1982/1983 sem ekki hefur verið gefinn út loðnukvóti.

,,Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði því þetta er ein umfangsmesta skipulagða loðnuleit sem lagt hefur verið í á seinni árum. Það jákvæða er þó að þrátt fyrir að ekki hafi tekist að mæla nema 385 þúsund tonn virðist sem loðnan hafi hrygnt víða. Við höfum fréttir af því að loðnan hafi hrygnt við Vestmannaeyjar, Reykjanes, í Faxaflóa og í Kolluál. Það er vonandi ávísun á góða veiði eftir þrjú ár,” segir Björn Jónsson hjá LÍÚ sem stjórnaði leitinni af hálfu útvegsmanna með  Hafrannsóknastofnuninni.

Loðnuleit í vetur hófst með leiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar þann 17. nóvember og stóð  til 12. desember. Í þeim leiðangri tókst að mæla 270 þúsund tonn af hrygningarloðnu fyrir norðvestanverðu landinu. Strax eftir áramót var haldið til leitar á ný og bættust þá loðnuskipin Faxi, Börkur og Lundey við í leitina. Öll  skipin eru með dýptarmæla sem eru sambærilegir við mæla hafrannsóknaskipanna og fjarskiptabúnað sem gerir þeim kleift að senda það sem mælist beint til Hafrannsóknastofnunarinnar til úrvinnslu. Árangur þessarar  leitar var nánast samhljóða fyrri niðurstöðu, eða um 268 þúsund tonn.

Loðnuleit Árna Friðrikssonar hélt áfram og þann 6. febrúar var tilkynnt að tekist hefði að mæla 370 þúsund tonn út af Austfjörðum auk 15 þúsund tonna á grunnslóð, samtals 385 þúsund tonn. Þremur dögum síðar gaf sjávarútvegsráðherra út 15.000 tonna leitarkvóta en þá var loðnan komin vestur undir Vík.

Eftir það tóku fjölmörg fiskiskip þátt í loðnuleitinni ásamt rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni. Til að byrja með var lögð áhersla á að leita djúpt út af NA-landi, Austurlandi, SA af landinu og síðan djúpt og grunnt að Vestmannaeyjum. Ekkert fannst á djúpslóð en leitarskipin fundu  loðnutorfur á grunnslóð sem  fiskifræðingarnir töldu  að væru inn í þeim 385 þúsund tonnum sem áður var búið að mæla. Farið var í þrjá leiðangra á Vestfjarðamið og þann síðasta fór Álsey VE og leitaði til 12. mars í Kolluál og út af Vestfjörðum. Ekkert kom út úr því nema hrygnd loðna.                                                                                           

Björn Jónsson segir að samstarfskipstjórnarmanna, útgerðarmanna og þeirra  sem sjá um loðnurannsóknir hjá Hafró hafi verið með miklum ágætum í þessu verkefni. „Það sem við getum lært af þessu er að útbúa sem flest – og  helst öll – loðnuskip með mælitæki sem hafa verið kvörðuð til samræmis við búnað rannsóknaskipanna þannig að framvegis megi nýta sem stærsta hluta loðnuflotans til leitar á uppsjávartegundum.” segir Björn.