mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umhverfismerki á norskar rækjur

26. september 2008 kl. 16:28

Norskar rækjur veiddar í Barentshafi verða umhverfisvottaðar með sérstöku merki frá samtökunum Friends of the Sea.

Tilgangurinn er að styrkja trú manna á því að rækjustofninn í Barentshafi sé nýttur á sjálfbæran hátt og er þess vænst að umhverfismerkingin muni örva sölu á norskum rækjum, að því er segir í frétt frá Norges Råfisklag, sölusamtökum norskra fiskimanna.

Þetta er áframhald þeirrar þróunar í Noregi að fá erlend umhverfisvottunarsamtök til þess að votta sjávarafurðir sínar og fá að nota merki þeirra. Nú þegar hefur norskur ufsi verið vottaður af MSC-samtökunum.

Jafnframt hafa Norðmenn óskað eftir því við MSC að samtökin votti veiðar þeirra á þorski, ýsu og norsk-íslenskri síld. Nái það fram að ganga verða flestir mikilvægustu fiskistofnar Norðmanna komnir með umhverfisvottun áður en langt um líður.

Sem kunnugt er hafa Íslendingar ekki viljað fara þá leið sem Norðmenn hafa kosið í þessu efni, heldur hefur verið ákveðið að koma upp séríslensku umhverfismerki fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Nýja merkið verður kynnt í fyrsta sinn á Íslensku sjávarútvegssýningunni sem hefst í Kópavogi í næstu viku. Hagsmunaaðilar í íslenskum sjávarútvegi hafa jafnframt ákveðið með fulltingi stjórnvalda að óska eftir vottun óháðs og alþjóðlega viðurkennds, faggilts vottunaraðila til að staðfesta ábyrgar fiskveiðar Íslendinga.