fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umtalsvert afrán þorsks á humri

svavar hávarðsson
11. mars 2019 kl. 07:00

Humarinn er eftirsótt hráefni en horfur veiðinnar næstu árin eru afleitar. Aðsend mynd

Afrán á humri hefur lítið verið rannsakað hér við land en fæðugreiningar gefa þó ákveðna mynd.

Á sama tíma og humarstofninn við Ísland virðist gott sem hruninn liggja litlar upplýsingar fyrir um afrán á humri við Ísland. Þær upplýsingar sem liggja fyrir benda til þess að þorski þykir humar álitleg bráð. Ljóst er að þorskstofninn hefur styrkst og stækkað á sama tímabili og humarstofninn hefur látið undan síga.

Eins og Fiskifréttir greindu frá í lok janúar ráðleggur Hafrannsóknastofnun að humarafli ársins 2019 verði aðeins 235 tonn. Þessi aflaheimild er í raun rannsóknakvóti svo fylgjast megi með stærðarsamsetningu og dreifingu humarstofnsins. Jafnframt leggur stofnunin til að allar humarveiðar verði bannaðar á vissum svæðum til verndar uppvaxandi humri; Jökuldjúpi og Lónsdjúpi. Til að minnka álag á humarslóð ráðleggur Hafrannsóknastofnun einnig að veiðar með fiskibotnvörpu verði bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi.

Humarafli tvöfaldaðist frá árinu 2004 til ársins 2010 þegar hann náði 2.500 tonnum. Síðan hefur aflinn minnkað og var 728 tonn árið 2018, sem er minnsti afli frá upphafi veiða árið 1957, og útgefið aflamark hefur ekki náðst síðustu tvö fiskveiðiár.

Í gögnum Hafrannsóknastofnunar segir jafnframt að Þéttleiki humarholna við Ísland mælist nú með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið veitir ráðgjöf fyrir. Lengdarmælingar úr afla og stofnmælingum benda til nýliðunarbrests á undanförnum árum.

Um horfur stofnsins segja fyrirliggjandi gögn að nýliðun sé í sögulegu lágmarki og að árgangar frá 2005 séu mjög litlir. Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun stofnsins.

Forvitnilegar niðurstöður

Þau Ingibjörg G. Jónsdóttir og Jónas P. Jónasson, sérfræðingar hjá Hafrannsóknastofnun, tóku saman helstu niðurstöður úr fæðugreiningum áranna 2008 til 2016 í humarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar. Niðurstöður þeirra eru forvitnilegar í samhengi við nýjustu upplýsingar af humarstofninum en niðurstöður Ingibjargar og Jónasar benda til að humar sé algeng fæða þorsks, en hins vegar er humar ekki mikilvæg fæða ýsu.

Niðurstöður sínar birtu þau í október síðastliðnum (Afrán á leturhumri (Nephrops norvegicus) í stofnmælingu humars árin 2008 til 2016) þar sem ein megin niðurstaðan er sú að þorskstofninn  hefur styrkst og stækkað á sama tímabili og humarstofninn hefur gefið verulega eftir. Því sé mikilvægt að vakta og fylgjast með útbreiðslu og samspili þessara tegunda, „sér í lagi þar sem humarstofninn á undir högg að sækja.“

Afrán lítið rannsakað

Í skýrslunni segir að lítið er vitað um afrán á humri víðar en hér. Nokkrar rannsóknir voru gerðar við Írland og birtar snemma á níunda áratug síðustu aldar en aðeins ein rannsókn hefur verið gerð við Ísland árin 2001/2002. Sú rannsókn benti til þess að afrán þorsks á humri væri töluvert. Árið 2008 var byrjað að greina magasýni úr þorski í humarleiðangri og ári síðar úr ýsu. Þetta var gert til að meta afrán þessara tveggja mikilvægu nytjastofna á humarslóð.

Nákvæmar niðurstöður má kynna sér í skýrslunni sjálfri en þar segir í niðurlagi að það sé ólíklegt að  ýsustofninn geti  haft mikil áhrif á  stofnstærð  humars þar sem humar er aðeins lítill hluti fæðu hennar. Stækkandi ýsustofn er því ólíkleg ógn fyrir humarstofninn enda virðist sem ýsumagnið sé ekki að aukast á humarslóð.

Humar var hins vegar töluverður hluti af fæðu þorsks á vissum tíma árs.

„Stofnvísitala humars og aflabrögð hafa farið hratt lækkandi á síðustu  árum. Helsta orsökin er talin  vera léleg nýliðun. Umtalsvert afrán á sér þó stað þótt það hafi ekki aukist marktækt í þessari rannsókn á árabilinu 2008 til 2016. Þorskstofninn hefur styrkst og stækkað á þessu sama tímabili. Mikilvægt er að vakta  og  fylgjast með  útbreiðslu og samspili þessara tegunda, sér í lagi þar sem humarstofninn á undir högg að sækja,“ segir þar.