fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Unglax reynist vera duglegur kafari

8. nóvember 2018 kl. 12:30

Endurheimtur lax með mælimerki í kviðarholi. Mynd/Hafró

Unglax á það til að kafa allt niður á tæplega tólf hundruð metra dýpi, og tengist það fæðuatferli þeirra, að talið er. Laxarnir voru merktir með rafeindamerkjum íslenska hátæknifyrirtækisins Stjörnu-Odda.

Rannsókn nokkurra sérfræðinga á ferskvatnslífríkissviði Hafrannsóknastofnunar hefur dregið fram athyglisvert atferli unglaxa í hafi. Þeir eiga það til að kafa allt niður á tæplega tólf hundruð metra dýpi, og tengist það fæðuatferli þeirra, að talið er.

Nýlega birtist grein þeirra „Deep-diving of Atlantic salmon (Salmo salar) during their marine feeding migrations“ í tímaritinu Environmental Biology of Fishes, þar sem þessu atferli er lýst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun þar sem segir ennfremur:

Í greininni er fjallað um dýpishegðun og sérstaklega djúpar dýfur sjö endurheimtra laxa í sjávardvöl þeirra á 15 mánaða tímabili, sem nær yfir alla sjávardvöl laxanna. Árin 2005 og 2006 voru laxaseiði merkt með rafeindamerkjum sem komið var fyrir í kviðarholi seiðanna og sleppt í Kiðafellsá í Kjós. Rafeindamerkin voru framleidd af íslenska hátæknifyrirtækinu Stjörnu-Odda og skráðu hita og dýpi (þrýsting) á klukkustundar fresti. Mestan hluta tímans voru laxarnir á tiltölulega litlu dýpi (<100m), en sýndu dægursveiflur allan tímann, þar sem fiskarnir héldu sig nálægt yfirborði sjávar yfir nóttina en köfuðu niður á meira dýpi yfir daginn.

Dægursveiflunar voru sérstaklega áberandi frá hausti fram á vor. Þegar leið á sjávardvölina fóru laxarnir að taka stuttar djúpar dýfur (>100 m) og jókst tíðni og lengd dýfanna er leið á veturinn. Þessar djúpu dýfur höfðu áður sést hjá hoplöxum en þetta er í fyrsta skipti sem þær sjást hjá unglaxi.

Mesta dýpi sem laxarnir sýndu var frá 419 metrar til 1.187 metrar. Flestar dýfurnar voru innan við 5 klukkustundir en lengsta dýfan var 33 klukkustundir. Algengast var að dýfurnar hæfust á kvöldin eða að nóttu til.

Tilgáta höfunda er sú að djúpar dýfur laxanna tengist fæðuatferli, en þekkt er að miðsjávarfiskar geta verið mikilvæg fæða fyrir laxa að vetrarlagi.