miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutningur eldisfisks hefur þrefaldast

21. desember 2018 kl. 12:00

Hlutdeild heimsálfa í fiskeldi. Mynd/Íslandsbanki

Fiskeldi tekur fram úr fiskveiðum árið 2020

Fiskeldi mun reynast vaxtarbroddur í heildarframleiðslu sjávarafurða til framtíðar. Heildarframleiðsla sjávarafurða á árinu 2017 nam 175 milljónum tonna.

Þar af voru fiskveiðar um 53% eða 92 milljónir tonna og fiskeldi um 47% eða um 83 milljónir tonna. Mest er veitt af uppsjávarfiski eða um 38% af heildarveiðum, næst á eftir kemur svo botnfiskur (23%), skelfiskur (17%) og aðrar sjávarafurðir(13%).

Tæpir 2/3 hlutar fiskeldis eru á landi á meðan rúmur 1/3 hluti er fiskeldi í sjó. Á landi eru laxfiskar langalgengastir á meðan skelfiskur er stærsti hluti framleiðslu fiskeldis í sjó. Fiskeldi mun drífa áfram magnaukningu í framleiðslu sjávarafurða litið fram á við og gerir spá OECD ráð fyrir því að fiskeldi muni í fyrsta skipti standa undir meira magni sjávarafurða en hefðbundnar fiskveiðar árið 2020.

Þegar litið er hingað heim hefur útflutningur á eldisfiski ríflega þrefaldast frá 2014. Á sama tímabili hefur verðmæti vegna útflutnings á eldisfiski aukist minna, eða rúmlega tvöfaldast. Ástæðan er einna helst styrking krónunnar á umræddu tímabili.

Mesta útflutningsverðmæti vegna eldisfisks fer til Þýskalands eða um fjórðungur alls útflutningsverðmætis. Því næst fer mesta verðmætið til Bandaríkjanna, eða 16% af heild, Danmerkur með 11% og Hollands og Bretlands með sín hvor sjö prósentin.

Samanlagt fer um 65% af heildarverðmæti vegna eldisfisks til áðurgreindra þjóða.

Heimild: Íslandsbanki: Íslenskur sjávarútvegur 2018