fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutningur hafinn á frystri grásleppu til Kína

18. ágúst 2009 kl. 13:12

Nú er hafinn útflutningur á frystri grásleppu til Kína, og hafa nokkrir gámar verið seldir. Triton ehf hefur í samstarfi við Landssamband smábáteigenda staðið að þessum útflutningi.

Í áratugi hefur grásleppan nánast eingöngu verið veidd til þess að hirða hrognin en erfitt hefur verið að finna farveg fyrir grásleppuna sjálfa, sem hefur verið hent í stórum stíl fram að þessu. Miðað við veiðar síðustu árin þá falla til um 2.800 tonn af grásleppu eftir að hrognin haf verið nýtt. En nú hillir undir breytingar og hefur Triton ehf unnið markvisst að því á undanförnum árum að koma frystri grásleppu á markað. Eftir þátttöku í sýningum í Kína kom loks alvöru pöntun og hafa verið seldir nokkrir gámar.

Þetta kemur fram á vef AVS-sjóðsins en hann styrkir þetta verkefni. Þar segir ennfremur að nokkuð erfitt hafi í fyrstu verið að fá sjómenn til að breyta kviðskurðinum á grásleppunni til að ná hrognunum, en það var ein af forsendum þess að kaupandinn í Kína tæki við vörunni. Menn séu bjartsýnir á að meira magn komist á markað á næstu vertíð.