þriðjudagur, 22. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útiloka ekki frekari loðnugöngur

7. febrúar 2018 kl. 07:00

Hafrannsóknastofnun skipuleggur loðnuleit við Vestfirði og Norðvesturland

Hafrannsóknastofnun mun ekki skoða frekar loðnugönguna sem nú gengur austur fyrir land. Hins vegar verður hafsvæðið út af Vestfjörðum og Norðvesturlandi kannað eins fljótt og auðið er til að kanna hvort frekari loðnugöngur sýni sig. Útgerðarmenn lýsa yfir vonbrigðum með niðurstöðu mælingarinnar sem liggur fyrir.

„Viðbrögðin eru ekkert óvænt, menn höfðu töluverðar væntingar eftir mælingarnar í haust,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknarstofnun, um viðbrögð forsvarsmanna útgerðarfyrirtækja við niðurstöðu loðnuleiðangurs Hafrannsóknarstofnunar á dögunum. Heildarkvótinn á yfirstandandi loðnuvertíð verður að óbreyttu 285.000 tonn. Það er 77.000 tonna viðbót við upphafskvótann sem gefinn var út í haust. Í hlut íslenskra útgerða koma rétt um 182.000 tonn af útgefnum heildarkvóta.

Eins og fram hefur komið var niðurstaðan mörgum vonbrigði, og er það yfirlýst tilfinning manna að tilefni hafi verið til að leyfa meiri loðnuveiði. Þess vegna sé ástæða til frekar rannsókna á loðnugöngunni sem veitt hefur verið úr.

Búast til brottfarar
Spurður um framhaldið segir Þorsteinn að Hafrannsóknastofnun muni ekki skoða frekar gönguna sem er komin austur fyrir land og er að detta uppá grunnin fyrir austan og suðaustan land.

„Við erum hinsvegar að skipuleggja að fara af stað með það að markmiði að skoða svæðið út af Vestfjörðum og Norðvesturlandi,“ segir Þorsteinn. „Það gerum við í ljósi þess að við getum alls ekki útilokað það að frekari göngur komi inn. Því teljum við mikilvægt að það sé skoðað og vaktað, og það munum við gera um leið og veður leyfir. Spáin er hinsvegar afleit og því get ég ekki gefið nákvæma dagsetningu á það, en það dregst í það minnsta fram á eða yfir helgina miðað við veðurspár – það er samt bara spá og við fylgjumst vel með.“

Mæliskekkjan mikil
Rannsóknasvæðið í janúar var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, austur með Norðurlandi og út af Austfjörðum. Gerðar voru tvær mælingar á veiðistofninum. Um 849.000 tonn af kynþroska loðnu mældust í fyrri yfirferðinni og mæliskekkja var metin 0.38 sem er mesta mæliskekkja sem sést hefur frá því að aflaregla var tekin upp árið 2015. Í síðari yfirferðinni mældust um 759.000 tonn og mæliskekkjan metin 0.18.

Þar sem ekki er marktækur munur á niðurstöðum allra þessara mælinga voru þær notaðar saman til framreikninga og ákvörðunar aflamarks samkvæmt aflareglu.

Ný aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats útreikninganna, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið. Þar sem mikil óvissa er í mælingunum nú leiðir aflareglan til þeirrar niðurstöðu sem nú er gagnrýnd, en kallað er eftir því að endurmeta forsendur hennar enda gefi hún svo mjög breytta niðurstöðu en aflareglan sem var aflögð eftir áratuga notkun.

Óvissa
„Varðandi aflaregluna þá skiljum við að vissu leiti þeirra gremju,“ segir Þorsteinn um óþolinmæði útgerðarinnar.

„Endurteknar mælingar áttu að leiða til þess að öryggismörk lækkuðu og að það myndi leiða til aukins kvóta vegna þess að meiri vissa væri um stofnstærð. Mælingarnar í haust og núna eru hinsvegar tvær af þremur með mikilli eða mjög mikilli óvissu, og því er óvissan í niðurstöðu um stærð stofnsins töluvert mikil. Það leiðir síðan af því að aflamark samkvæmt reglunni verður lægra en ef óvissan væri minni. Við erum hinsvegar í þessari stöðu núna og lítið við því að gera,“ segir Þorsteinn.