þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útvegsmenn vestra hvetja til áframhaldandi hvalveiða

5. september 2008 kl. 13:12

Aðalfundur Útvegsmannafélags Vestfjarða sem haldinn var á Ísafirði í gær, leggur áherslu á að hvalveiðum í atvinnuskyni verði haldið áfram, bæði á hrefnu og langreyði.

Bent er á að hvorki stofnar hrefnu né langreyðar séu í útrýmingarhættu og sjálfbærar veiðar í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar muni ekki ganga um of á þessa stofna að mati vísindanefndar Alþjóða hvalveiðiráðsins. Ráðið sjálft hafi ennfremur úrskurðað að hvalveiðar Íslendinga séu fyllilega löglegar.

Síðan segir í ályktuninni:

,,Til að framhald geti orðið á veiðum á langreyði í atvinnuskyni þarf að tryggja að útflutningur á hvalkjöti til Japan verði að veruleika, en engar alþjóðlegar reglur eða lög banna þau viðskipti. Stærð hvalastofna við landið er nú nálægt sögulegu hámarki og er afrán þeirra úr vistkerfinu verulegt, eða um 6 milljónir tonna á ári. Þar af eru um 2 milljónir tonna fiskur. Verði stærð hvalastofna haldið í skefjum með sjálfbærum veiðum getur það leitt til þess að þorskstofninn vaxi mun hraðar en ella, enda éta hvalir, samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunarinnar, um milljón tonn af loðnu og gífurlegt magn af sandsíli árlega. Báðar þessar fiskitegundir eru undirstöðufæða þorsksins. Þar að auki hafa rannsóknir sýnt að hrefnan étur umtalsvert magn af veiðanlegum þorski.”

Að auki var ályktað á aðalfundi félagsins að auðlindagjald sem lagt er á sjávarútveg einan atvinnugreina verði fellt strax niður, þannig að sjávarútvegurinn njóti jafnræðis við aðrar atvinnugreinar