miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vantar fjársterka þátttakendur

Guðsteinn Bjarnason
21. desember 2018 kl. 07:00

Friðrik Friðriksson og Axel Örn Sigurðsson þegar Magni var kominn í Slipp á síðasta ári. MYND/Jón Kr. Friðgeirsson

Sjálfboðaliðar hafa lagt um 400 vinnustundir í að gera dráttarbátinn Magna sýningarhæfan og hafa nú fundið gamla vél í góðu ástandi. Enn vantar tæpar fjórar milljónir til að ganga frá þeim kaupum.

„Þetta hefur gengið hægt en vel, en það sem vantar núna eru fjársterkir aðilar sem kæmu að þessu verkefni,“ segir Axel Orri Sigurðsson, formaður Hollvinasamtaka Magna, sem hefur unnið hörðum höndum að því að gera upp dráttarbátinn Magna.

Báturinn lá undir skemmdum í Reykjavíkurhöfn þar til hann var tekinn upp í slipp á síðasta ári og skveraður upp, hreinsaður og málaður.

Fyrsti áfangi verksins er að gera skipið sýningarhæft og er stefnt að því að opna almenningi aðgang á sjómannadaginn 2020. Næst er síðan að gera skipið ganghæft svo hægt verði að sigla því, en þar strandar helst á vélinni því sú gamla er ónýt.

Ný vél hefur þegar verið fundin í Danmörku, hún kom úr sænsku flutningaskipi sem var rifið í fyrra, en vélin er í góðu ástandi.

„Þetta er nákvæmlega sama vél og í skipinu, hún er gangfær og það er búið að ástandsskoða hana í Danmörku, þarf ekki að fara í neina yfirhalningu. Og hún passar alveg þar sem gamla vélin er, það þarf ekkert að breyta vélarrúminu. Þetta er örugglega eina tækifærið sem við fáum til að fá vél sem er alveg eins og sú gamla, þær eru ekki margar eftir í heiminum í þessu ástandi.“

Vélin á að kosta 400 þúsund danskar krónur, en það er nálægt því að vera 7,5 milljónir íslenskra króna. Hollvinasamtökin hafa nú þegar safnað 1,6 milljónum fyrir innborgun, en þá vantar 5,9 milljónir.

„Við erum síðan búnir að fá vilyrði frá Faxaflóahöfnum fyrir tveimur milljónum en þá vantar 3,9 milljónir eða svo. Það verður eitthvað púsluspil.“

Sjálfboðaliðar á vegum Hollvinasamtökanna hafa nú lagt um 400 klukkustunda vinnu við að gera skipið sýningarhæft og halda ótrauð áfram í von um að geta klárað verkið á næstu árum.

„Við náðum á einu ári að safna fjórum og hálfri milljón sem dugði fyrir slipptöku og innborgun á vélina. Slipptakan kom ótrúlega vel út, skipið er að stórum hluta eins og það var þegar það var smíðað 1955. Það eru einhverjar smávægilegar lagfæringar sem þarf að gera á skrokk.“